Hagnaður raftækjaframleiðandans Samsung dróst saman um 19,6% á öðrum ársfjórðungi miðað við sama tímabil í fyrra. Mun þetta vera í fyrsta skipti í þrjú ár sem hagnaður fyrirtækisins dregst saman milli ára, að því er fram kemur á vef Wall Street Journal . Hagnaður Samsung á öðrum ársfjórðungi nam 6,1 milljarði bandaríkjadala. Tekjur lækkuðu um tæp 9%.

Hagnaður af farsímadeild fyrirtækisins féll mest og er það ekki síst skrifað á aukna samkeppni frá Apple. Samkeppni á farsímamarkaði er orðin mjög hörð og í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að seinni helningur ársins verði mikil áskorun.

Sérfræðingar segja að Samsung muni þurfa að lækka verð á snjallsímum sínum vegna þess að neytendur sjái ekki ástæðu til að borga tvöfalt eða þrefalt hærra verð fyrir síma frá þeim, samanborið við önnur merki.