Hagnaður suður-kóreska tæknifyrirtækisins Samsung Electronics nam 3,8 milljörðum bandaríkjadollurum á þriðja ársfjórðungi. Er það um 60% minni hagnaður en á sama tímabili á síðasta ári. Er afkoman í samræmi við spár fyrirtækisins.

Samsung er stærsti snjallsímaframleiðandi í heimi, en hlutabréf í fyrirtækinu hafa fallið um nær 20% það sem af er þessu ári. Snjallsímasalan hefur þar töluvert að segja, en samkeppni á markaðnum hefur aukist mikið að undanförnu og býst fyrirtækið við því að hún fari enn harðnandi á næstunni.

Hefur Galaxy síminn misst töluverða markaðshlutdeild til kínverska snjallsímaframleiðandans Xiaomi og Lenovo, sem hafa gefið sig út fyrir að selja ódýrari síma með stærri skjáum.