Hagnaður spænska bankans Santander á þriðja ársfjórðungi var 90% lægri en hann var fyrir ári síðan. Nam hagnaðurinn um 100 milljónum evra, en var 1,8 milljarðar evra á þriðja fjórðungi síðasta árs.

Ástæðan er einkum sú að bankinn hefur þurft að færa gríðarháar fjárhæðir á afskriftarreikning til að mæta hugsanlegum afföllum á fasteignalánum. Nú þegar eru 3,5 milljarðar evra á slíkum reikningum hjá bankanum, en í tilkynningu bankans segir að vandræðalán nemi alls 18,5 milljörðum evra.

Fram hefur komið að spænskir bankar þurfi að minnsta kosti um 60 milljarða evra björgun til að halda þeim á floti, en sjö bankar, Santander þar á meðal, eru hins vegar ekki taldir þurfa á slíkri aðstoð að halda.