Ríkisolíufyrirtæki Sádi Arabíu, Saudi Armaco hagnaðist um 46,9 milljarða dollara á fyrri helmingi ársins og dróst hagnaður þess saman um 12% frá sama tímabili í fyrra. Er þetta í fyrsta sinn sem fyrirtækið birtir hálfs árs uppgjör eftir að hafa lokið 12 milljarða dollara skuldabréfaútboði í apríl síðastliðnum. Að sögn stjórnenda fyrirtækisins má rekja lægri hagnað til 4% lækkunar á heimsmarkaðsverði á olíu frá sama tíma í fyrra auk þess sem framleiðslukostnaður og afskriftir hafa aukist.

Þrátt fyrir minni hagnað er fyrirtækið enn langarðbærasta fyrirtæki heims en til samanburðar má nefna að hagnaður Apple nam 31,5 milljörðum á sama tímabili auk þess sem olíufyrirtækin Exxon Mobil og Royal Dutch Shell skiluðu hvort um sig 5,5 og 8,8 milljarða dollara hagnaði.

Tekjur fyrirtækisins námu 163,88 milljörðum dollara samanborið við 167,68 milljarða á sama tíma í fyrra. Þá jókst handbært fé frá rekstri um 6,7% milli ára og nam 38 milljörðum dollara á tímabilinu. Þá var einnig greint frá því að Armaco hefði skrifað undir viljayfirlýsingu um kaup á 20% hlut í olíu- og efnaarmi indverska fyrirtækisins Reliance Industries.

Greint var frá því á föstudag að stjórnendur Saudi Armaco væru aftur komnir með til skoðunar að skrá fyrirtækið á hlutabréfamarkað sem yrði langstærsta skráning sögunnar og er ætlað að vera liður í því að opna hagkerfi landsins. Miðað við áætlanir stjórnvalda í landinu er fyrirtækið metið á um 2.000 milljarða dollara.