Hagnaður Símans nam 2,8 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi 2021 samanborið við 762 milljóna hagnað á sama tíma árið áður. Aukinn hagnaður stafar aðallega af sölu á dótturfélaginu Sensa til Crayon en söluhagnaðurinn nam rúmum tveimur milljörðum króna.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) lækkaði hins vegar um 98 milljónir króna eða um 3,7% milli ára og nam 2,5 milljörðum króna á fyrsta fjórðungi ársins. Félagið segir þetta stafa af lægri reikitekjum og auknum erlendum kostnaði samstæðunnar. Jafnframt segir Orri Hauksson, forstjóri Símans, í tilkynningu að fyrsti ársfjórðungur 2020 hafi verið einn sá besti í sögu félagsins.

Tekjur Símans hækkuðu um 1,6% milli ára og voru tæpir 6,4 milljarðar króna fyrstu þremur mánuðum ársins. Orri segir að meðal ástæðna fyrir auknum heildartekjum hafi verið meiri búnaðarsala, sem beri þó lægri framlegð. Einnig hafi auglýsingatekjur félagsins aukist „vegna breyttrar og sérsniðinnar þjónustu Símans við auglýsendur“ sem auðveldar þeim að ná betur til skilgreindra markhópa. Svo hafi tónlistarþættirnir Heima með Helga slegið öll áhorfsmet.

Eigið fé Símans nam 39,4 milljörðum í lok marsmánaðar, skuldir 26,5 milljörðum og eignir tæplega 66 milljörðum króna. Eiginfjárhlutfall Símans var 59,8% í lok fjórðungsins samanborið við 57,2% árið áður.

Fá Lazard og Íslandsbanka til að kanna valkosti á eignarhaldi á Mílu

Fram kemur að félagið hafi ráðið fjárfestingabankann Lazard ásamt Íslandsbanka til að ráðleggja um stefnumarkmið og framtíðarmöguleika Mílu. Kannaðir verða valkosti á framtíðar eignarhaldi á Mílu. „Ekki liggur fyrir til hvaða niðurstöðu þetta verkefni mun leiða en nánar verður upplýst um framvindu þess um leið og ástæða er til,“ segir Orri.