*

mánudagur, 25. janúar 2021
Innlent 27. október 2020 16:24

Hagnaður Símans jókst um 13%

Á þriðja ársfjórðungi hagnaðist Síminn um milljarð króna, en hagnaðurinn hefur dregist saman um fimmtung á árinu.

Ritstjórn
Orri Hauksson er forstjóri Símans.
Haraldur Guðjónsson

Hagnaður Símans jókst um 13% milli ára á þriðja ársfjórðungi, og fór hagnaðurinn þar með úr 897 milljónum króna í ríflega milljarð, eða 1.014 milljónir króna á fjórðungnum. Tekjur félagsins jukust um nokkru minna eða um 1,8%, en þær námu ríflega 7,2 milljörðum á ársfjórðungnum í ár en tæplega 7,1 milljarði á sama tíma fyrir ári.

Framlegðin af sölu félagsins dróst hins vegar nokkuð saman eða um 3,9%, úr ríflega 3,4 milljörðum í 3,3 milljarða króna, en rekstrarkostnaðurinn jókst í heildina um 1,5%, úr ríflega 5,7 milljörðum í rétt rúmlega 5,8 milljarða króna.

Rekstrarhagnaður félagsins (EBIT) jókst þar með um 3,1%, og fór í rétt rúmlega 1,4 milljarða króna, meðan rekstrarhagnaðurinn fyrir afskriftir og fjármagnsliði, það er EBITDA hagnaðurinn, hækkaði um 116 milljónir eða 4,1%, úr rétt rúmlega 2,8 milljörðum í ríflega 2,9 milljarða króna.

Handbært fé frá rekstri án vaxta og skatta nam 2.257 milljónum króna á 3F 2020 en var 4.024 milljónir króna á sama tímabili 2019, og minnkaði því um 44%. Eftir vexti og skatta nam handbært fé frá rekstri 1.967 milljónum króna á 3F 2020 en 3.590 milljónum króna á sama tímabili 2019, svo minnkunin þar var nokkuð meiri eða rétt ríflega 45%.

Fimmtungssamdráttur það sem af er ári

Þegar horft er til fyrstu níu mánaða ársins þá dróst hagnaður Símans saman um nærri fimmtung, úr rétt rúmlega 2,3 milljörðum króna í rétt tæplega 1,9 milljarða króna.

Tekjurnar á tímabilinu jukust um 2,7%, úr tæplega 21,2 milljörðum króna í rúmlega 21,7 milljarða, meðan rekstrargjöldin jukust um 7,3%, úr 17,4 milljörðum króna í 18,7 milljarða króna. Framlegðin dróst jafnframt saman um 3,3%, úr 10 milljörðum í 9,7 milljarða króna.

Rekstrarhagnaðurinn dróst einnig saman um nærri fimmtung, eða 18,6%, úr tæplega 3,8 milljörðum í tæplega 3,1 milljarð, meðan EBITDA hagnaðurinn dróst saman um 2,3%, úr tæplega 7,8 milljörðum í rétt um 7,6 milljarða króna.

Eiginfjárhlutfallið hækkaði við meiri minnkun skulda en eigið fés

Eigið fé félagsins minnkaði um 0,2% á fyrstu níu mánuðum ársins, og nam tæplega 36,6 milljörðum króna við lok september, meðan skuldirnar drógust saman um 4,6%, úr tæplega 28,9 milljörðum króna í tæplega 27,6 milljarða króna.

Þar af drógust svokallaðar vaxtaberandi skuldir félagsins saman um 4,9%, úr 16,2 milljörðum í 15,4 milljarða króna. Hreinar vaxtaberandi skuldir voru 14,7 milljarðar króna í lok þriðja ársfjórðungs 2020 samanborið við 16,0 milljarða króna í árslok 2019.

Hrein fjármagnsgjöld námu 149 milljónum króna á þriðja ársfjórðungi 2020 en voru 232 milljónir króna á sama tímabili 2019. Fjármagnsgjöld námu 181 milljónum króna, fjármunatekjur voru 52 milljónir króna og gengistap var 20 milljónir króna. Eignir félagsins drógust þar með saman um 2,1%, úr 65,5 milljörðum króna í 64,1 milljarð króna, og eiginfjárhlutfallið jókst þar með úr 55,9% í 57%.

„Rekstur samstæðunnar er í vel ásættanlegum gangi um þessar mundir. Tekjur og afkoma þokuðust upp á við á þriðja ársfjórðungi miðað við sama tímabil í fyrra, en þá var vöruframboð samstæðunnar orðið sambærilegt við það sem nú er. Tekjur af erlendum ferðamönnum eru lítið brot af því sem var á fyrra ári, en tekjustraumar samstæðunnar innanlands fá fyrirsjáanlega og að ýmsu leyti hagfellda framvindu á fjórðungnum," segir Orri Hauksson, forstjóri Símans.

„Þannig vaxa stafræn afþreying og búnaðarsala umtalsvert milli ára. Tekjur af upplýsingatækni og gagnatengingum vaxa einnig lítillega milli þriðju fjórðunga áranna tveggja, en innlend farsímaþjónusta stendur í stað og talsímaþjónusta dregst saman sem fyrr. Erfitt efnahagsástand hefur enn ekki valdið verulegum vanskilum viðskiptavina samstæðunnar.

Kostnaður vegna lögfræði og málarekstrar var hár á þriðja fjórðungi ársins, en ferðakostnaður, laun og útgjöld vegna ýmissa hefðbundinna umsvifa í rekstrinum dragast saman, meðal annars vegna aukinnar fjarvinnu og samkomutakmarkana. Starfsmönnum móðurfélagsins hefur fækkað um tæplega 50 á árinu, vegna áframhaldandi útvistunar verkefna og aukinnar sjálfvirkni í starfseminni. EBITDA niðurstaða ársins stefnir í að vera í efri hluta áður útgefins spábils.

Ýmsum fyrirhuguðum fjárfestingaverkefnum ársins var slegið á frest síðastliðið vor, eftir að heimsfaraldurinn brast á. Fjárfestingar móðurfélagsins eru að miklu leyti í erlendri mynt og verða því dýrari í krónum með lækkuðu gengi. Heildaráhrif frestaðra fjárfestinga og gengisbreytinga eru að samstæðan verður við neðri mörk spábils fjárfestinga á árinu. Auk ljósleiðaravæðingar eru lykil þróunarverkefni samstæðunnar um þessar mundir nýbreytni í tæknilegum sjónvarpsafurðum félagsins, bætt gagnanýting og innleiðing dreifisamnings við Gagnaveitu Reykjavíkur. Farsímakerfi Símans er byggt upp með búnaði frá hinu sænska fyrirtæki Ericsson og á það einnig við um 5G tækni.“