Síminn hefur birt ársreikning fyrir árið 2015. Tekjur félagsins voru 30.407 milljónir króna, samanborið við 30.322 milljónir króna árið áður; tekjur félagsins hækkuðu því um 85 milljónir milli ára.

Hagnaður ársins nam 2.875 milljónum króna en hann var 3.274 milljónir króna árið áður. Hagnaður lækkar því um 399 milljónir milli ára. Í uppgjörinu er tekið fram að á árinu 2014 varð söluhagnaður vegna krafna á Glitni, dótturfélags og fastafjármuna að fjárhæð 753 milljónir króna. Án þessara liða hækkar hagnaður á milli ára.

EBITDA félagsins var 8.042 milljónir króna, samanborið við 8.313 ári áður. EBITDA hlutfallið er 26,4% fyrir árið 2015 en var 27,4% árið 2014. Vaxtaberandi skuldir lækkuðu um 1,3 milljarð króna og voru 24,2 milljarðar í lok árs. Hreinar vaxtaberandi skuldir lækkuðu um 1,3 milljarða og voru 20,1 milljarður í lok árs. Eiginfjárhlutfall Símans hf. var 52,8% í lok árs 2015 og eigið fé 32,8 milljarðar króna.

Orri Hauksson, forstjóri Símans:

„Síminn hefur nú betri burði til að sækja fram eftir afrakstur endurskipulagningar á samstæðunni á síðasta ári. Afkoman er í takt við áætlanir okkar, sem við kynntum í aðdraganda skráningar Símans á markað í október. Skipti, Síminn og Skjárinn sameinuðust á síðasta ári og upplýsingatæknisvið Símans var fært undir dótturfélagið Sensa. Vöruframboði samstæðunnar var breytt og fókusinn stilltur. [...]

Staðan er vel viðunandi. Harðnandi samkeppni og fyrirséðar hundruð milljóna króna kostnaðarhækkanir samstæðunnar vegna SALEK-samkomulags á vinnumarkaði valda því hins vegar að skerpa þarf enn frekar á rekstrinum til hagsbóta fyrir viðskiptavini og hluthafa.“

Uppgjör Símans var birt stuttu fyrir opnun markaða. Það sem af er degi hafa hlutabréf í Símanum lækkað um sem nemur 2,53% í 105 milljón króna viðskiptum.