Fjarskiptafélagið Síminn hf. hagnaðist um 905 milljónir króna á þriðja ársfjórðungi borið saman við 1.128 milljónir á sama tímabili í fyrra samkvæmt árshlutauppgjöri . Dróst hagnaður félagsins því saman um 20% milli ára. Á fyrstu níu mánuðum ársins nam hagnaður Símans 2.469 milljónum en var 2.154 á sama tíma í fyrra. Hefur hagnaður Símans því aukist um 15% á þessu ári.

Sala Símans var 6.856 milljónir á þriðja ársfjórðungi og framlegð 3.476 milljónir, en framlegð á sama tíma í fyrra var 3.662 milljónir. EBITDA var 2.387 milljónir en var 2.583 milljónir í fyrra. Rekstrarhagnaður Símans nam 1.463 milljónum á þriðja ársfjórðungi en var 1.679 milljónir í fyrra. EBITDA hlutfallið er 34,3% fyrir þriðja ársfjórðung 2017 en var 35,5% á sama tímabili 2016.

Eignir Símans námu 60,8 milljörðum í lok september. Eiginfjárhlutfall Símans var 59,2% í lok þriðja ársfjórðungs 2017 og eigið fé 36 milljarðar króna.

Handbært fé frá rekstri án vaxta og skatta nam 2.618 milljónum króna á þriðja ársfjórðungi 2017 en var 2.681 milljón króna á sama tímabili 2016. Eftir vexti og skatta nam handbært fé frá rekstri 2.178 milljónum króna á þriðja ársfjórðungi 2017 en nam 2.268 milljónum króna á sama tímabili 2016.

Orri Hauksson, forstjóri Símans, segir rekstur Símans ganga vel og vera í samræmi við væntingar.

„Rekstur Símasamstæðunnar gengur vel í ár og er samkvæmt væntingum. EBITDA er rúmum hálfum milljarði hærri en fyrstu níu mánuðina í fyrra, þrátt fyrir samdrátt í reiki og verðlækkanir í smásölu. Viðskiptavinum með farsíma hefur fjölgað og kynntar hafa verið nýjungar sem lofa góðu inn í framtíðina. Samstarfsaðilar okkar hafa áttað sig hratt á tækifærunum í Síminn Pay, sjávarútvegurinn fagnar örygginu sem Líflínan býður þeim og vinsældir Sjónvarps Símans Premium vaxa stöðugt.

Síminn býður upp á hraðasta farsímanet landsins, sem óháðir aðilar hafa staðfest annað árið í röð og yfir helmingur heimila á höfuðborgarsvæðinu á nú kost á að tengjast ljósleiðara Mílu. Samstæðan nýtur afraksturs mikilla fjárfestinga í innviðum undanfarin misseri, sem nýtist viðskiptavinum hennar og hluthöfum til framtíðar. Fjárfestingar hafa náð hámarki og í kjölfarið mun sterkt fjárflæði frá rekstri samstæðunnar hægt og rólega nýtast beint til aukinnar fjármunamyndunar.

Efnahagsreikningurinn var einfaldaður í upphafi fjórðungsins með endurskipulagningu skulda og handbærs fjár. Samstæðan er nú með sveigjanlegri rekstur og efnahag en fyrr og þannig vel í stakk búin til að bregðast við samkeppni og nýta tækifæri til sóknar,“ segir Orri.