Tveir sjóðir í rekstri Júpiters högnuðust um 397,5 milljónir króna á síðasta ári, en Júpiter er rekstrarfélag í eigu Kviku banka.

Annar sjóðurinn, Veðskuld slhf. hagnaðist um tæplega 369,5 milljónir króna, en árið 2016 var hagnaðurinn rúmlega 503,4 milljónir króna. Dróst hann því saman milli ára um 26,6%, en sjóðurinn er að stærstum hluta í eigu lífeyrissjóðanna.

Eru Birta lífeyrissjóður og Lífeyrissjóður Verslunarmanna stærstu hluthafarnir með fimmtungshlut hvor, en Kvika banki á sjálfur um 16% og LSR með um 12%, en aðrir með minna. Eigið fé sjóðsins nam 408,4 milljónum króna í lok árs 2017, en á sama tíma fyrir ári nam það 9,7 milljörðum króna samkvæmt efnahagsreikningi.

Munar þar mestu um að hlutabréf í sjóðnum hafa verið færð niður úr 9 milljörðum niður í 4 milljónir, en á árinu gaf félagið út skuldabréf fyrir tæpa 8 milljarða. Hagnaður hins sjóðsins, Veðskuldabréfasjóðsins Virðingar var töluvert minni, eða 28 milljónir króna, en árið áður hafði verið tap á sjóðnum fyrir tæplega 8,8 milljónir króna.

Hrein eign sjóðsins fór úr tæplega 87 milljónum króna í tæpar 115 milljónir á milli ára. Fóru hreinar fjármunatekjur sjóðsins og fjármagnsgjöld úr 21 milljón í 62 milljónir á sama tíma.