Hagnaður Sjóvá nam 1.746 milljónum króna árið 2017 og lækkaði um 35% milli ára en tryggingafyrirtækið hagnaðist um 2.690 milljónir króna árið 2017.

Mestu munar þar um síðri afkomu af fjárfestingastarfsemi. Hagnaður af fjárfestingarstarfsemi fyrir skatta nam 927 milljónum króna en var 2.419 milljónir króna árið 2016. Ávöxtun eignasafns félagsins var 5,9% á árinu miðað við 10,1% á fyrra ári.

Afkoma af vátryggingarstarfsemi batnaði hins vegar mikið milli ára.  Hagnaður af vátryggingastarfsemi fyrir skatta nam 1.158 milljónum króna miðað við 646 milljónir króna árið 2016.

Stjórn félagsins leggur til að 1,5 milljarðar króna verði greiddar í arð vegna starfsemi síðasta árs.

„Vátryggingarekstur styrkist frá fyrra ári við krefjandi aðstæður þar sem tjónakostnaður eykst í takt við aukin umsvif í þjóðfélaginu. Hagnaður af vátryggingastarfsemi nær tvöfaldast á milli ára, fer úr 646 milljónum króna 2016 í 1.158 milljónir króna árið 2017. Samsett hlutfall ársins nemur 99,4% samanborið við 100,9% á árinu 2016. Segja má að afkoma af fjárfestingarstarfsemi hafi verið viðunandi sé litið til þess að verðbréfamarkaðir voru mjög sveiflukenndir á árinu og skiluðu um tíma neikvæðri ávöxtun. Við þessar aðstæður er ánægjulegt að vátryggingarekstur skili bættri afkomu,“ er haft eftir Hermanni Björnssyni, forstjóri Sjóvá í tilkynningu.