Hagnaður Sjóvá nam 652 milljónum króna í fyrra en 1,75 milljörðum króna árið 2017 og lækkar því um 63% á milli ára samkvæmt nýbirtu uppgjöri félagsins. Hagnaður af vátryggingastarfsemi fyrir skatta nam 1,6 milljörðum króna í fyrra miðað við 1,2 milljarða árið 2017. Samset hlutfall Sjóvá lækkaði úr 99,4% í 97,4% á milli ára. Hins vegar var tap af fjárfestingarstarfsemi fyrir skatta 679 milljónir króna miðað við 927 milljóna hagnaður árið 2017. Þá nam ávöxtun eignarsafn félagsins 0,9% en var 5,9% árið 2017.

Sjóvá áætlar að samsett hutfall fyrir árið 2019 verði um 95% og hagnaður fyrir skatta um 3,3 milljarðar króna. Til samanburðar var hagnaður fyrir skatta 952 milljónir árið 2018 og 2,1 milljarður króna árið 2017. Eignir námu 44,2 milljörðum króna í árslok, eigið fé 13,8 milljörðum króna og skuldir 30,4 milljörðum króna.

„Þrátt fyrir að liðið ár hafi verið tjónaþungt hefur heilbrigður iðgjaldavöxtur gert það að verkum að afkoma af vátryggingarekstri var betri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Samsett hlutfall fyrir 4F 2018 nam 96,5% sem er rúmum 3 prósentustigum lægra en á 4F 2017. Samsett hlutfall ársins 2018 nam 97,4% og lækkar um 2 prósentustig á milli ára. Afkoma af vátryggingastarfsemi eykst þannig um 40% á milli ára við krefjandi aðstæður. Afkoma af fjárfestingarstarfsemi dregur niður heildarafkomu ársins 2018 og var töluvert undir væntingum á árinu. Það skýrist fyrst og fremst af tapi á skráðum og óskráðum hlutabréfum en skuldabréf skiluðu einnig lægri ávöxtun en vænst var,“ er haft eftir Hermanni Björnssyni forstjóra Sjóvá í tilkynningu.