Hagnaður Sjóvá nam á þriðja ársfjórðungi nam 140 milljónum króna sem er mikill viðsnúningur frá sama tíma fyrir ári þegar félagið tapaði 472 milljónum króna. Hagnaðurinn nemur því 259 milljónum króna á fyrstu níu mánuðum ársins, sem er 80% lægri hagnaður en fyrir sama tímabil í fyrra en þá nam hann 1.331 milljón króna.

Á þriðja ársfjórððungi nam hagnaður af vátryggingastarfsemi fyrir skatta 708 milljónum króna, en á sama tíma 2017 nam hann 499 milljónum króna.Tap af fjárfestingarstarfsemi fyrir skatta nam 426 milljónum króna fyrir tímabilið, en á þriðja ársfjórðungi síðasta árs var tapið rúmlega tvöfalt meira eða 946 milljónir króna.

Ávöxtun eignasafns félagsins fór því úr því að vera neikvæð um 2,4% á þriðja ársfjórðungi síðasta árs í að vera neikvæð um 0,8% á sama tíma í ár. Samsett hlutfall lækkaði úr 94,6%, í 91,3%, en það er mælikvæarði á afkomu í tryggingarekstri og sýnir að félagið býr nú við lægri tjóna- og rekstrarkostnað sem hlutfall af iðgjöldum en fyrir ári.

Gerðu ráð fyrir að hlutfallið yrði hærra

Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvár segir samsetta hlutfallið vera tæpum 3 prósentustigum undir því sem horfur gerðu ráð fyrir. „Í því tilliti er þetta besti 3F frá því Sjóvá var tekið til skráningar á markað 2014. Afkoman fyrir fyrstu 9 mánuði ársins er einnig góð þegar litið er til samsetts hlutfalls sem nam 97,8%. Niðurstaðan er sérstaklega ánægjuleg þegar haft er í huga að tveir stórbrunar áttu sér stað á 2F ársins.

Þessi góða niðurstaða úr vátryggingarekstri helgast fyrst og fremst af góðum iðgjaldavexti sem hefur undanfarin misseri einkennst af vexti eigin iðgjalda umfram eigin tjón, að 2F þessa árs undanskildum. Slík þróun byggir undir heilbrigðan vöxt vátryggingastarfseminnar.“

Hagnaður af vátryggingastarfsemi fyrir skatta það sem af er ári nemur 1.151 milljónum króna sem er aukning frá 884 milljónum króna árið áður. Tap af fjárfestingarstarfsemi tímabilsins fyrir skatta nemur 685 milljónum króna en á sama tíma fyrir ári hagnaðist félagsins um 617 milljónir króna.

Horfurnar lækkaðar

Ávöxtun eignasafns félagsins var neikvæð um 0,1% fyrstu níu mánuði ársins en á sama tíma fyrir ári var hún jákvæð um 4,2%. Samsett hlutfall tímabilsins fer úr 99,3% fyrir ári í 97,8%.

„Horfur fyrir samsett hlutfall fjárhagsársins 2018 hafa verið uppfærðar í samræmi við afkomu fyrstu níu mánuði ársins og óbreyttar horfur fyrir 4F og stefnir samkvæmt því í 97% í stað 98%,“ segir Hermann. „Horfur um afkomu fyrir skatta hafa verið lækkaðar úr 1.000 m.kr. í 900 m.kr. í ljósi afkomu af fjárfestingastarfsemi það sem af er ári.“