*

laugardagur, 16. október 2021
Innlent 11. febrúar 2021 16:29

Hagnaður Sjóvár jókst um 38%

Hagnaður Sjóvár nam 5,3 milljörðum króna á árinu 2020. Hagnaður af fjárfestingarstarfsemi nær tvöfaldaðist milli ára.

Ritstjórn
Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvár, segir styrkleika félagsins hafa sýnt sig við krefjandi aðstæður.
Baldur Kristjánsson

Hagnaður Sjóvár nam 5,3 milljörðum króna á árinu 2020, sem er aukning um 38% milli ára. Hagnaður af vátryggingastarfsemi fyrir skatta nam tæpum 2 milljörðum króna sem er lækkun um 17% frá fyrra ári en hagnaður af fjárfestingarstarfsemi nær tvöfaldaðist milli ára og nam tæpum fjórum milljörðum króna.

Ávöxtun fjárfestingareigna í stýringu nam 13,2% samanborið við 10% árið áður og samsett hlutfall var 92% samanborið við 91,2% árið 2019.

Horfur fyrir árið 2021 gera ráð fyrir að samsetthlutfall verði um 92% og að hagnaður af vátryggingastarfsemi fyrir skatta verði um 2,1 milljarður króna.

Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvar hlaut Viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar árið 2020, en Sjóvá hafði vakið athygli fyrir góðan rekstur samhliða því að vera með ánægðustu viðskiptavini tryggingarfélaga. Þá hafi félagið verið í fararbroddi í jafnréttismálum.

Góð afkoma við krefjandi aðstæður

Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvár, segir í tilkynningu afkomuna góða við krefjandi aðstæður:

„Styrkleikar félagsins komu bersýnilega í ljós við krefjandi aðstæður á árinu. Markvissar aðgerðir síðustu ára til þess að bæta vátryggingareksturinn halda áfram að skila árangri og fjárfestingastefna félagsins hefur reynst vel á sveiflukenndum verðbréfamörkuðum. Starfsfólk félagsins hefur sýnt mikla seiglu og aðlagast hratt nýju vinnuumhverfi án þess að það bitni á þjónustuupplifun. Mannauðurinn leggur grunninn að aukinni ánægju viðskiptavina okkar sem samkvæmt nýlegum mælingum hefur aldrei mælst meiri. Rekstur félagsins gekk afar vel á fjórða ársfjórðungi sem og á árinu í heild hvort sem litið er til vátryggingastarfsemi eða fjárfestingarstarfsemi og arðsemi eigin fjár nam 28,3% á árinu."

Þá segir hann vátreggingarekstur félagsins stöðugan og að afkoma fjárfestingarstarfsemi hafi verið umfram væntingar:

„Afkoma ársins 2020 af vátryggingarekstri fyrir skatta nam 1.968 m.kr. og dregst lítillega saman á milli ára, en samsett hlutfall var 92% á árinu. Iðgjaldavöxtur nam 4,3% á fjórða ársfjórðungi og 1,0% á árinu í heild. Er hann einkum drifinn áfram af góðum vexti á einstaklingsmarkaði sem hefur vegið upp á móti samdrætti hjá fyrirtækjum innan ferðaþjónustunnar. Þessi rekstrarniðurstaða verður að teljast afar sterk í ljósi sviptinga í efnahagslífinu á liðnu ári og jafnframt þar sem Sjóvá felldi í heild sinni niður bifreiðaiðgjöld einstaklinga í maí í kjölfar samdráttar í umferð og fækkunar tjóna. Nam sú niðurfelling 650 m.kr. og kemur til viðbótar þeim 640 m.kr. sem tjónlausir vildarviðskiptavinir okkar fengu greiddar í formi Stofn-endurgreiðslu á árinu, 26. árið í röð.

Afkoma ársins 2020 af fjárfestingarstarfsemi fyrir skatta nam 3.960 m.kr. Ávöxtun af fjárfestingareignum í stýringu nam 13,2% á árinu og vegur þar þyngst afkoma skráðra hlutabréfa sem þróaðist með afar jákvæðum hætti á síðari hluta ársins eftir miklar lækkanir vegna óvissu í kjölfar útbreiðslu Covid-19 síðasta vor. Eignir í stýringu námu 43,8 ma.kr. í lok ársins og hafa vaxið í takt við góða rekstrarafkomu sem og þar sem fallið var frá fyrirhugaðri arðgreiðslu vegna fjárhagsársins 2019."