Hagnaður Sjóvár eftir skatta nam 1.790 milljónum króna í fyrra samanborið við 2.057 milljónir árið 2012. Iðgjöld ársins jukust um 2,2% milli ára og námu námu 13.017 milljónum króna. Þetta kemur fram í tilkynningu vegna ársreiknings Sjóvár.

Fjárfestingatekjur námu 2.191 milljónum króna sem er nokkur lækkun frá fyrra ári þegar þær voru 2.530 milljónir. Í tilkynningu kemur fram að helsta skýringin sé lægri ávöxtun skuldabréfa á árinu. Í lok árs nam verðbréfaeign félagsins 30 milljörðum króna.

Eignir félagsins þann 31. desember 2013 námu 42,7 milljörðum króna og hækkuðu um 6% á árinu. Eigið fé þann 31. desember 2013 nam 16,7 milljörðum króna og hefur aukist jafnt og þétt síðastliðin ár. Eiginfjárhlutfall er sterkt og var 39,3% í lok árs. Arðsemi eigin fjár var 11,9% á árinu.

Stefnt er að því að hlutabréf Sjóvár verði tekin til viðskipta í næsta mánuði að undangengnu almennu útboði.