Afkoma Sjóvár nam 3.290 milljónum króna fyrir skatta á öðrum ársfjórðungi, að því er kemur fram í afkomuviðvörun sem félagið sendi frá sér eftir lokun markaða í dag. Til samanburðar var hagnaður Sjóvár fyrir skatta á öðrum fjórðungi síðasta árs um helmingi lægri eða 1,7 milljarðar. Samsett hlutfall á síðustu þremur mánuðum var 91% samkvæmt drögum að uppgjörinu.

Afkoma af fjárfestingastarfsemi Sjóvár fyrir skatta nam 2,7 milljörðum króna sem er „langt umfram væntingar“ stjórnenda félagsins. Fram kemur að afkoman skýrist helst af mikilli ávöxtun af skráðum hlutabréfum.

Einnig skiluðu breytingar á virði óskráðra eigna 640 milljóna króna jákvæðri afkomu á fjórðungnum. Sú breyting stafar af því að virði hlutabréfa í Controlant, Ölgerðinni og Kerecis voru færð upp en niðurfærsla átti sér stað á eign félagsins í 105 Miðborg sem á nú í deilum við ÍAV vegna framkvæmda við Kirkjusandsreitinn.

Afkoma af vátryggingastarfsemi fyrir skatta nam 590 milljónum króna á fjórðungnum sem var lítillega yfir væntingum stjórnenda.

Af þessu leiðir að afkoma af vátryggingastarfsemi fyrir skatta á fyrstu sex mánuðum ársins nemur um 1.150 milljónum króna, samsett hlutfall er um 91,5% og afkoma af fjárfestingarstarfsemi fyrir skatta um 4.350 milljónir. Afkoma Sjóvár fyrir skatta nam því 5,5 milljörðum króna fyrir skatta á fyrri hluta ársins, samanborið við 1,3 milljarða á sama tímabili í fyrra og 2,9 milljarða á fyrstu sex mánuðum 2019.

Í tilkynningunni er þó tekið fram að uppgjörið sé í vinnslu og kann að taka breytingum fram að birtingardegi þann 17. ágúst næstkomandi.