Skeljungur hagnaðist um 295 milljónir króna á öðrum ársfjórðungi en hagnaður félagsins dróst saman um 32% frá sama tímabili í fyrra. Tekjur félagsins námu rúmlega 13,3 milljörðum á tímabilinu og jukust um 12% milli ára en framlegð nam 2,1 milljarði og jókst um 7% milli ára. ,

EBITDA nam 780 milljónum króna og lækkaði um 14% milli ára en EBITDA aðlöguð að áhrifum frá IFRS 16 nam 730 milljónum og lækkaði um 19,5% milli ára. EBITDA framlegð var 36,8% á tímabilinu en var 45,8% á sama tíma í fyrra.

Eigið fé í lok júní var 9.348 milljónir króna en félagið keypti eigin bréf á fjórðungnum fyrir 369 milljónir. Eiginfjárhlutfall var 34,5% í lok júní.

Í tilkynningu vegna uppgjörsins er haft eftir Árna Pétri Jónssyni, forstjóra Skeljungs:

„Afkoman á öðrum ársfjórðungi er í takt við væntingar og er rekstur félagsins á áætlun.

Afkoman á Íslandi var lægri en á síðasta ári sem var metár í sögu félagsins. Í Færeyjum gekk reksturinn mjög vel. Það er góður gangur í efnahagslífi Færeyja og þess fyrir utan erum við að bæta hlutdeild okkar þar á flestum sviðum.

Þann stutta tíma sem ég hef verið hér í félaginu hef ég séð að grunnrekstur félagsins er góður og tækifæri til að sækja fram.