Hagnaður Skeljungs lækkar um 13,5% milli ára á þriðja ársfjórðungi, fer úr 724 milljónum króna í fyrra í 626 milljónir króna í ár. Horfur félagsins um afkomu ársins eru óbreyttar í 3 til 3,2 milljarða EBITDA hagnaði á árinu 2019.

Félagið segir minnkun hagnaðar fyrst og fremst skýrast af verri afkomu hlutdeildarfélaga, en rekstur þeirra skilaði 45 milljónum til samstæðunnar fyrir ári en kostaði hana nú 58 milljónir, sem er lækkun um 103 milljónir króna.

Hagnaðurinn lækkar á sama tíma og sala félagsins jókst um 4,4%, úr 14,5 milljörðum króna í ríflega 15,1 milljarð, en á sama tíma jókst kostnaðarverð seldra vara um 3,7%, úr tæplega 12,3 milljörðum í 12,7 milljarða, svo framlegðin jókst um 8,5%, úr 2.241 milljónum í 2.431 milljón króna.

Laun og launatengd gjöld, sölu og dreifingarkostnaður jókst hins vegar um 15,2%, úr 1,1 milljarði í tæplega 1,3 milljarða og var jókst því EBITDA félagsins um 5%, úr 1.179 milljónum í 1.238 milljónir króna. Í tilkynningu frá félaginu segir að EBITDA félagsins hafi aldrei verið hærri á einum ársfjórðungi.

Þegar horft er til fyrstu níu mánuða ársins kemur fram að:

  • Hagnaður eftir skatta var 1.332 milljónir króna samanborið við 1.575 m.kr. árið áður sem er lækkun um 15,4% milli ára.
  • Hagnaður á hlut var 0,66 en var 0,76 á sama tímabili í fyrra.
  • EBITDA nam 2.909 milljónum króna sem er 0,3% hækkun frá fyrstu 9 mánuðum ársins 2018.
  • Framlegð nam 6.657 milljónir króna og hækkar um 11,6% frá fyrstu 9 mánuðum ársins 2018.
  • Aðlöguð EBITDA var 2.771 milljónir króna og lækkar um 1,0% frá fyrra ári.**
  • Tap vegna hlutdeildarfélaga var 99 milljónir króna á fyrstu 9 mánuðum ársins samanborið við 3 milljóna króna hagnað á sama tímabili 2018.
  • Uppreiknuð arðsemi eiginfjár var 19,2% samanborið við 25,3% yfir sama tímabil 2018.
  • Meðalgengi dönsku krónunnar var 18,4 sem er 10,2% hækkun frá sama tímabili 2018.
  • Á árinu hafa farið fram kaup á eigin bréfum fyrir 550 milljónir

Segir stöðu Skeljungs sterka á færeyskum smásölumarkaði

Árni Pétur Jónsson forstjóri Skeljungs segir EBITDA afkomu félagsins á ársfjórðungnum vera umfram væntingar. „Reksturinn gengur vel bæði á Íslandi og í Færeyjum og árið lítur vel út. Sjóðstreymi félagsins er sterkt og vel hefur tekist að draga úr fjárbindingu félagsins sem sýnir sig vel í lækkun vaxtaberandi skulda upp á 3 milljarða á fjórðungnum. Handbært fé frá rekstri eykst um 3.153 m. á milli fjórðunga,“ segir Árni Pétur.

„Staða Skeljungs á smásölumarkaði er sterk í Færeyjum þar sem allur verslunarrekstur er á höndum félagsins. Á Íslandi tók félagið fyrsta skrefið inn á smásölumarkaðinn á tímabilinu með kaupunum á Basko. Kaupin eru enn til skoðunar hjá Samkeppniseftirlitinu en niðurstöðu er að vænta fljótlega.

Kaupin munu gera okkur kleift að flétta betur saman þjónustu Orkunnar og Kvikk auk þess sem Skeljungur verður betur í stakk búinn til að nýta önnur tækifæri til frekari uppbyggingar á þessu sviði. Þá eru einnig spennandi tækifæri framundan í Færeyjum tengd áformum stjórnvalda þar í landi um orkuskipti en við erum í lykilstöðu til að nýta okkur þau þegar fram í sækir.“