Útgerðarfyrirtækið Skinney-Þinganes á Höfn í Hornafirði hagnaðist um rétt rúma 2,2 milljarða króna á síðasta ári samanborið við tæpa 1,6 milljarða árið 2010. Hlutfallslega jókst hagnaðurinn um 42% á milli ára.

Tekjur útgerðarinnar námu 10.298 milljónum króna á árinu samanborið við 8.196 milljónir árið 2010. Það er 25% aukning á milli ára. Eignir Skinneyjar-Þinganess námu í lok síðasta árs 23.371 milljónum króna sem er 5% aukning á milli ára. Á sama tíma námu skuldir 17.241 milljónum króna. Eigið fé nam í lok síðasta árs 6.130 milljónum króna. Eiginfjárhlutfall samstæðunnar var 26,2%.

Fyrrum forsætisráðherra fékk hlut í arf

DV fjallar um uppgjörið í dag. Þar er bent á að arðgreiðslur til hluthafa hafi á síðastliðnum tveimur árum numið 367 milljónum króna. Þar er tekið fram að Skinney-Þinganes er í eigu náinna ættingja Halldórs Ásgrímssonar, fyrrverandi utanríkis- og forsætisráðherra, og bent á að hann eigi sjálfur lítinn hlut í því, um 1,3%. Bróðir Halldórs og bróðursonur eru á meðal þeirra sem á 30% hlut í útgerðinni í gegnum eignarhaldsfélagið Tvísker. Bróður Halldórs er jafnframt hluthafi í útgerðinni í gegnum annað eignarhaldsfélag. DV hefur eftir Halldóri að hann hafi erft hlutinn í útgerðinni eftir foreldra sína. Blaðið reiknar út að arðgreiðslur til hans hafi numið tæpum fimm milljónum króna á þessum tveimur árum.

„Ég erfði lítinn hlut hlutabréfa í félaginu eftir foreldra mína. Faðir minn lést 1996 og móðir mín sat í óskiptu búi þar til hún lést 2004. Þá kom í minn hlut 1/5 hluti af þeirra hlutafé.“