Samanlögð velta þeirra fyrirtækja sem mynda Skýrr ehf. var um 22 milljarðar króna á síðasta ári. EBITDA framlegð af reglubundnum rekstri var 790 milljónir króna og afkoma eftir skatta um 390 milljónir. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Skýrr og þar segir jafnframt að gert sé ráð fyrir 23-24 milljarða króna veltu á yfirstandandi ári og EBITDA framlegð upp á 1,4 milljarða.

„Talsverð uppsveifla var í afkomu Skýrr-samstæðunnar milli áranna 2009 og 2010. Tekjur ársins 2010 voru 22.129 milljónir króna, en voru 21.477 milljónir 2009. EBITDA framlegð fyrir árið 2010 var 790 milljónir króna, en var 181 milljón árið 2009. Afkoma samstæðunnar var jákvæð um 389 milljónir króna árið 2010, en var hins vegar neikvæð um 362 milljónir árið 2009. Þetta er ágætur viðsnúningur, við erum stolt af þessum rekstrarárangri og útlitið fyrir 2011 er gott," segir Þorsteinn G. Gunnarsson, stjórnarformaður Skýrr í tilkynningunni.

Ný stjórn var kjörin á aðalfundi félagsins í gær. Aðalmenn eru Anna Rún Ingvarsdóttir, Einar Páll Tamimi, Gísli Hjálmtýsson, Þorsteinn G. Gunnarsson (formaður) og Þór Hauksson.

Aðaleigandi Skýrr er Framtakssjóður Íslands og hjá samstæðunni starfa um 1.100 manns.