Hagnaður Spalar, sem á og rekur Hvalfjarðargöng, nam 355 milljónum króna í fyrra. Þetta er 117 milljónum króna meiri hagnaður en árið 2012 en þá nam hann 238 milljónum króna. Hagnaður Spalar margfaldaðist á milli ára á fjórða ársfjórðungi. Hann nam 38 milljónum króna á fjórðungnum í fyrra en 9 milljónum króna árið 2012.

Fram kemur í uppgjöri Spalar að veggjöld í fyrra námu 1.091 þúsund krónum borið saman við 1.058 þúsund árið 2012 og var það 3,1% aukning á milli ára.

Rekstrarkostnaður Spalar án afskrifta í fyrra nam 329 milljónum króna og lækkar um tæpar 13 milljónir á milli ára þegar hann nam 342 milljónum króna. Skýrist þessi lækkun fyrst og fremst af lækkun á tryggingum og aðkeyptri sérfræðiþjónustu.

Í uppgjörinu segir jafnframt að greiðsluflæðið gefi betri mynd af gangi Spalar þar sem verðbætur vegna vísitöluhækkana lána dreifast til greiðslu fram til loka lánstímans, þ.e. 2018. Greiðslugeta félagsins undanfarin fimm ár hefur verið sterk. Um 629 milljónir króna voru greiddar í afborganir og vexti á tímabilinu og nauðsynlegt umframfjármagn var að auki til staðar 31. desember 2013 eins og lánasamningar gera ráð fyrir.