Hagnaður Spalar ehf. eftir skatta fyrir fyrsta árshluta nam tæpum 242 milljónum. Hagnaður Spalar hefur því aukist á milli ára, en fyrir sama tímabil í fyrra nam hann 168,6 milljónum.

Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að greiðsluflæði gefi betri mynd af gangi félagsins vegna þess að verðbætur vegna vísitöluhækkana lána dreifist til greiðslu fram til loka lánstímans. Greiðslugeta félagsins síðastliðin fimm ár  er talin sterk. Um 700 milljónir voru greiddar í afborganir og vexti á síðasta ári.

Veggjald nam 625 milljónum á fyrstu 6 mánuðum ársins, miðað við 533 milljónir á sama tíma í fyrra. Þetta er því 17,3% hækkun.

Rekstrarkostnaður fyrirtækisins án afskrifta nam 218 milljónum og hækkar um 27 milljónir.

Skuldir Spalar ehf hækka úr 2,64 milljörðum og upp í tæplega 2,8 milljarða í lok tímabils.