Hagnaður Spalar eftir skatta á síðasta ári nam 445 milljónum króna og er það nokkur aukning frá árinu 2013 þegar hann nam 355 milljónum króna. Félagið birti ársuppgjör sitt nú í morgun.

„Greiðsluflæðið gefur betri mynd af gangi félagsins þar sem verðbætur vegna vísitöluhækkana lána dreifast til greiðslu fram til loka lánstímans, þ.e. 2018. Greiðslugeta félagsins undanfarin 5 ár hefur verið sterk. Um 643 mkr. (2013: 657 mkr.) voru greiddar í afborganir og vexti á tímabilinu og nauðsynlegt umframfjármagn var að auki til staðar 31. desember 2014 eins og lánasamningar gera ráð fyrir,“ segir í tilkynningu frá Speli.

Félagið sótti sér 1.136 milljónir króna í gegnum veggjald, en það er 4,1% hærra en árið 2013 þegar fjárhæðin nam 1.091 milljónum króna. Rekstrarkostnaður Spalar án afskrifta nam 335 milljónum og hækkaði um sex milljónir frá árinu áður. Afskriftir námu 121 milljón króna á árinu.

Skuldir Spalar lækka úr 3.473 milljónum króna í árslok 2013 í 3.101 milljónir miðað við 31. desember 2014.

Gylfi Þórðarson, framkvæmdastjóri Spalar, segir að umferð og tekjur séu heldur meiri en áætlanir félagsins gerðu ráð fyrir. Á tímabilinu fóru 1.939 þúsund ökutæki um Hvalfjarðargöngin sem greiddu veggjald sem er um 2,7% aukning frá sama tímabili árið áður. Þessi fjöldi samsvarar því að um 5.312 ökutæki hafi farið um göngin að meðaltali dag hvern.