Sláturfélag Suðurlands hefur birt ársskýrslu fyrir árið 2015. Samstæðureikningurinn samanstendur af ársreikningi Sláturfélags Suðurlands svf. og dótturfélaga þess, Reykjagarðs hf. og Hollt & Gott ehf.  Í ársreikningi er bent á að Sláturfélag Suðurlands keypti 50% eignarhluta í Hollu & Góðu ehf. þann 31. ágúst 2015 og er félagið hluti af samstæðunni frá þeim tíma; hafa þarf það í huga við samanburð rekstrar- og efnahagsliða milli ára.

Tekjur félagsins á árinu námu 10.701 milljónum króna, samanborið við 10.628 milljónum króna árið áður. Tekjur aukast því um 73 milljónir króna milli ára. Hagnaður félagsins á árinu nam 230 milljónum, en var 433 milljónir árið áður. EBITDA afkoma var 726 milljónir en var 950 milljónir árið áður. Eigið fé var 4.189 milljónir króna og eiginfjárhlutfall var 53%.

Kostnaður við vöru og umbúðanotkun lækkar milli ára. Hann var 5.594 milljónir króna á síðasta ári, en 5.735 milljónir króna árið áður.Launakostnaður hækkaði um 11% og var 2.555 milljónir króna. Annar rekstrarkostnaður hækkaði einnig um 11% og var 1.848 milljónir króna.

Dýralæknar, Rússland og erfið staða á kjötmarkaði

Erfið staða á kjötmarkaði hefur þau áhrif að afkoma Sláturfélagsins versnaði milli ára. Einnig er tekið fram að áhrif á lokun á sölu kjöts til Rússlands og verðlækkun á aukaafurðum og gærum hefur neikvæð áhrif á afurðahluta félagsins. Verkfall dýralækna á vordögum olli mikilli truflun og var afurðahluta félagsins kostnaðarsamt.