Hagnaður Stálskips í Hafnarfirði fyrir skatta nam tæpum 9,3 milljörðum króna á síðasta ári. Félagið greiddi 1,9 milljarða króna í tekjuskatt og var því hagnaður ársins 7,4 milljarðar króna. Greint er frá þessu í Viðskiptamogganum .

Umskipti urðu í rekstri fyrirtækisins á síðasta ári, en á fjárhagsárinu seldi fyrirtækið frystitogarann Þór HF til Rússlands og þær aflaheimildir sem hann hafði verið gerður út á til nokkurra af stærstu útgerðum Íslands. Námu tekjur af sölu skipsins og aflaheimildanna rúmlega 9,2 milljörðum króna.

Eignir fyrirtækisins námu 12,5 milljörðum króna í árslok og skuldir voru 3,1 milljarður króna. Eigið fé Stálskipa nam því tæpum 9,4 milljörðum króna í lok ársins og hafði það vaxið úr 3,4 milljörðum frá fyrra ári.