Hagnaður fjárfestingafélagsins Stoða nam 7,6 milljörðum króna eftir skatta á síðasta ári, samanborið við rúma fjóra milljarða árið 2019. Hagnaður félagsins jókst því um 88% milli ára. Þetta kemur fram í ársreikningi Stoða fyrir árið 2020.

Hagnaðurinn stafar nær eingöngu af tekjum af skráðum fjárfestingaverðbréfum sem námu 7,5 milljörðum króna árið 2020, sem er um 3,6 milljarða hækkun frá fyrra ári. Rekstrarkostnaður félagsins nam 274 milljónum króna á síðasta ári, samanborið við 203 milljónir árið 2019. Meðalfjöldi starfsmanna Stoða voru 3,8 á síðasta ári en voru 3,1 árið áður.

Eigið fé félagsins var 31,7 milljarðar króna í árslok 2020 og jókst um 6,6 milljarða milli ára. Mest munaði um að fjárfestingareignir jukust um 8,8 milljarða króna milli ára. Útlán Stoða lækkuðu hins vegar úr 1,9 milljörðum í 278 milljónir króna. Skuldir félagsins námu einungis 42 milljónum króna.

Stoðir keyptu eigin bréf fyrir 992 milljónir króna að raunvirði á síðasta ári og áttu í lok árs 6,1% af útgefnu hlutafé. Félagið mun þó ekki greiða vegna fjárhagsársins 2020.

Þann 17. apríl tilkynntu Stoðir um að Jón Sigurðsson hafi verið ráðinn forstjóri en hann gegndi fyrirstjórnarformennsku félagsins. Sigurjón Pálsson var skipaður stjórnarformaður í hans stað. Einnig var tilkynnt um að Júlíus Þorfinnsson hafi tekið við starfi rekstrarstjóra.

Stærsti hluthafi Stoða er eignarhaldsfélagið S121 með 55,3% hlut en stærsti hluthafi S121 er Helgafell ehf. sem er í eigu Kristínar, Ara og Bjargar Fenger og fjölskyldu. TM er næst stærsti hluthafi Stoða með 12,4% beinan hlut en á einnig óbeint í gegnum S121.