Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBITDA) hjá Stork nam 66 milljónum evra á fyrstu sex mánuðum ársins eða tæplega 11 milljörðum króna. Á sama tíma í fyrra nam EBITDA-hagnaður 71 milljón evra og hefur því dregist saman um 5 milljónir evra milli ára.

Tekjur Stork jukust um 5% á fyrri hluta ársins samanborið við sama tíma í fyrra. Tekjuaukning er samræmi við eftirspurnaraukningu. Pantanabókin hefur stækkð  og námu pantanir 1.434 milljónir evra í lok tímabilsins samanborið við 1.407 milljónir evra á síðasta ári.

Stork er skipt upp í tvö mjög ólík fyrirtæki, Stork Technical Services, sem einbeitir sér að búnaði fyrir orkuiðnað, og Fokker Technologies flugiðnaðardeild. Eyrir Invest á 17% í London Acquisition, sem á og rekur Fokker og Stork Technical Services.

Í maí keypti Stork Technical Services fyrirtækið RBG Ltd, sem er með höfuðstöðvar í Skotlandi.  RBG starfar á ámóta sviði og Stork Technical Services í þjónustu við olíu og gasiðnað.  Kaupin voru gerð til að styrkja starfsemi Stork í Norðusjó, við Kaspíahaf og á svæðum í Mið-Austurlöndum.