Hagnaður Síldarvinnslunnar nam 21,1 milljón dala á fyrsta ársfjórðungi, eða um 2,7 milljarðar króna miðað við meðalgengi krónunnar á fyrstu þremur mánuðum ársins. Tekjur félagsins jukust um 79% milli ára og námu 6,7 milljörðum króna á fyrsta fjórðungi, sem skýrist fyrst og fremst af loðnuvertíð. Þetta kemur fram í fyrsta árshlutauppgjöri félagsins frá skráningu í Kauphöllina.

Í tilkynningu samhliða uppgjörinu segir að loðnuvertíðin hafi verið góð þrátt fyrir lítið aflamark. Einnig er tekið fram að vel hafi tekist að hámarka verðmæti hráefnisins og að allar birgðir séu seldar en hafa ekki verið afhentar kaupendum.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 2,5 milljarðar króna eða 37,9% af rekstrartekjum, en sama hlutfall var um 10,6% á fyrsta ársfjórðungi 2020.

Eignir samstæðunnar námu 77,2 milljörðum króna í lok tímabilsins og eigið fé 44,9 milljarðar og skuldir 32,3 milljarðar króna. Eiginfjárhlutfall samstæðunnar var því um 58,2%.

Samþykkt var á hluthafafundi í Síldarvinnslunni 26. mars síðastliðinn að afhenda SVN-eignafélag ehf. hluthöfum. Heildarskuldir Síldarvinnslunnar jukust um níu milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi vegna þessara aðgerða. Eiginfjárhlutfall Síldarvinnslunnar fór tímabundið í 58% en verður 65% eftir 9. apríl sem er arðgreiðsludagur hjá félaginu. Ófærður söluhagnaður að fjárhæð 24,2 milljónir dala verður færður á öðrum ársfjórðungi.

Síldarvinnslan fjárfesti nýlega í smíði á nýjum Berki NK 122 sem mun leysa af hólmi eldra skip félagsins af sama nafni. Kostnaður við smíðina var áætlaður um 5,2 milljörðum króna, samkvæmt útboðslýsingu félagsins. Nýr Börkur sigldi heim á leið frá Egersund í Noregi í gær og ráðgert að það komi til Neskaupstaðar á fimmtudaginn.

Samkeppniseftirlitið samþykkti kaup Bergs-Hugins ehf., dótturfélags SVN, á Bergi ehf. þann 25. febrúar síðastliðinn en aflaheimildir félagsins eru 1.549 þíg tonn.

Þann 4. mars var skrifað undir samning við Héðinn um smíði á 380 tonna fiskimjölsverksmiðju, þar með hófst fyrsti áfangi við stækkun og endurbætur fiskimjölsverskmiðjunnar.

Í byrjun apríl var gengið frá kaupum á 12,4% hlut í Runólfi Hallfreðssyni ehf. Sameining undir nafni Síldarvinnslunnar verður frá og með 1. júlí 2021.