Hagnaður Sýnar lækkaði um 45% á fjórða ársfjórðungi 2018 frá fjórða ársfjórðungi 2017, eða úr 356 milljónum í 195 milljónir. Ef horft er til þess sem félagið kallar heildarafkomu, þar sem kemur inn þýðingarmunur vegna erlends dótturfélags og áhættuvarnir, nam lækkunin hins vegar 11,3% á fjórða ársfjórðungi 2018 frá sama tímabili árið áður, eða úr 282 milljónum króna í 250 milljónir.

Í desember 2017 keypti félagið, sem þá hét Fjarskipti, ljósvakamiðla 365 miðla. Félagið seldi vörur fyrir 4,3 milljarða, með 1,9 milljarða framlegð á síðustu þremur mánuðum ársins 2017, en á nýliðnu tímabili nam vörusalan 5,75 milljörðum og framlegðin 2 milljörðum.

Það gerir 34% aukningu í tekjum, en rekstrarkostnaðurinn fór á sama tíma úr 374 milljónum króna í 1,77 milljarð. EBITDA hagnaður Sýnar nam 780 milljónum króna á fjórðungnum, sem er lækkun um 23 milljarða á milli ára. Aðlagaður EBITDA hagnaður, þar sem tekið hefur verið tillit til einskiptisliða, nam 798 milljónum króna, sem er 17% lækkun.

Meira en helmingslækkun fyrir árið

Ef horft er á hagnað fyrsta heila ársins eftir sameiningu í heild sinni nam hann 473 milljónum króna, sem er 56% lækkun frá fyrra ári þegar hann var tæplega 1,1 milljarður, en þá rak félagið fjarskiptarekstur Vodafone. Leiðréttur hagnaður ársins nam 608 milljónum króna sem er 52% lækkun frá fyrra ári.

Heildartekjur ársins námu 21,95 milljörðum króna sem er hins vegar 54% hækkun á milli ára, úr 14,27 milljörðum. Framlegðin jókst á sama tíma úr 6,4 milljörðum í 8,4 milljörðum.

Rekstrarhagnaðurinn lækkaði úr 1,55 milljörðum í 1,2 milljarða á milli áranna. EBITDA hagnaður á árinu 3,25 milljörðum króna sem er 4% lækkun milli ára. Aðlagaður EBITDA hagnaður á árinu nam 3,4 milljörðum króna sem er 2% aukning á milli ára.

Rekstrarfjárfestingar samstæðunnar námu 2,4 milljörðum króna, sem er 45% hækkun á milli ára, en þær voru 11% sem hlutfall af tekjum ársins, en árið 2017 var hlutfallið 11,7%.

EBITDA horfur félagsins hafa verið endurskoðaðar til lækkunar um 440 milljónir króna, auk þess sem tekið hefur verið tillit til sölu á meirihluta hlutafjár í færeyska símafyrirtækinu P/F Hey og breyttri reikningsskilaaðferð.

Stefán Sigurðsson, sem tilkynnti um að hann muni hætta sem forstjóri félagsins í sumarbyrjun, segir uppgjör fjórða ársfjórðungs marka tímamót nú þegar sameinað fyrirtæki hafi lokið heilu rekstrarári.

„Rekstraráætlanir sem lágu til grundvallar hafa ekki gengið eftir af ýmsum orsökum eins og endurspeglast í lækkun á útgefnum horfum. Samspil margra þátta leiðir til veikari reksturs en búist var við: Í fyrsta lagi hafa krefjandi ytri aðstæður með óvissu í efnahagslífinu haft áhrif á sjónvarpsáskriftir og auglýsingasölu,“ segir Stefán.

„Í öðru lagi hefur kostnaður við nýja starfsemi verið nokkuð hærri en búist var við auk þess sem kostnaðarhækkanir voru umtalsverðar vegna veikingar íslensku krónunnar á fjórða fjórðungi ársins. Í þriðja lagi ollu hnökrar í tengslum við yfirfærslu viðskiptavina um mitt ár álagi á þjónustuver á sama tíma og samkeppnin á markaðnum var mikil. Þetta samspil skapaði brottfall, aukinn sölukostnað og lækkun meðaltekna á viðskiptavini á fjórða fjórðungi. Þegar hefur verið brugðist við ofangreindum áskorunum með ýmsum aðgerðum. Þjónusta fyrirtækisins er komin í eðlilegt horf, salan hefur aukist þó samkeppni sé áfram hörð. Undanfarið hefur verið unnið hörðum höndum að því að draga áfram úr kostnaði sem mun halda áfram að skila sér inn á árið og um leið verður unnið að því að bæta og einfalda rekstur félagsins til næstu missera.

Tæknilegum samrunaverkefnum er að mestu leyti lokið og búið að flytja alla starfsemi Sýnar í höfuðstöðvar félagsins að Suðurlandsbraut 8-10. Sala á meirihluta P/F Hey í Færeyjum þjónar sem liður í að einfalda reksturinn. Af öðrum verkefnum er það helst að frétta að bygging fyrsta gagnavers Reykjavíkur, sem Sýn á hlutdeild í, er hafin á Korputorgi og við greinum mikinn áhuga á verkefninu enda verður gagnaverið eitt það öflugasta á landinu. Búast má við nýjum tekjum af því verkefni á  árinu 2020. Nú þegar stærri samrunaverkefnum er að mestu lokið er  samþætt fyrirtæki fjárhagslega sterkt og býr að miklum eignum og fjölbreyttum tekjustoðum. Fyrirtækið hefur því fjölmörg tækifæri til framtíðar og er vel í stakk búið til að takast á við óvissu í tengslum við samkeppni og ytri aðstæður" segir Stefán Sigurðsson forstjóri Sýnar.“