Kínverski internetrisinn Tencent jók hagnað sinn um 89%, upp 38,45 milljarða yuan, eða sem nemur tæplega 800 milljörðum íslenskra króna, á þriðja ársfjórðungi samhliða aukinni spilun á tölvuleikjum fyrirtækisins.

Tekjur félagsins jukust um 29% á fjórðungnum milli ára, í 125,45 milljarða yuan, en félagið er stærst í heimi í gerð tölvuleikja ef miðað er við tekjur. Hvort tveggja hagnaðaraukningin og tekjuaukningin var fram úr væntingum greinenda.

Samhliða ársfjórðungsuppgjörinu kom félagið því skýrt á framfæri við stjórnvöld kommúnista í Kína að það væri til í samstarf samhliða því að reglugerðarumhverfi stórfyrirtækja þar í landi hefur verið hert.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um stöðvuðu stjórnvöld í landinu stærsta frumútboð sögunnar hjá greiðslumiðlunarfyrirtækinu Ant Group eftir að regluverk landsins var hert, en eftirspurnin í útboðinu hafði numið 422 billjónum íslenskra króna .

Tencent leggur hins vegar áherslu á að stefna félagsins „passi vel við anda reglurammans“ sem stjórnvöld þar í landi hafa boðað til að draga úr einokun stærstu fyrirtækjanna að því er WSJ greinir frá.

Þannig er stefna fyrirtækisins sögð vera meira í línu við vilja yfirvalda í kommúnistaríkinu þvert á það sem Jack Ma, stofnandi Ali Baba og Ant Group er sagður hafa, sem aftur leiddi til þess að stjórnvöld stöðvuðu útboð fyrirtækis hans.

Tencent græddi ekki bara á aukinni spilun tölvuleikja heldur kom einnig til aukinn ágóði af fjárfestingum félagsins í rafbílaframleiðslu. Félagið er einnig með samfélagsmiðla, streymisveitur, greiðslumiðlun og sjóðsstýringu.