Útgerðarfélagið Þorbjörn hf. skilaði í fyrra hagnaði upp á rúma 1,6 milljón evra, sem samsvarar um 210 milljónum króna. Árið 2014 nam hagnaður fyrirtækisins 3,8 milljónum evra. Ársreikningur fyrirtækisins er samandreginn, en rekstrarhagnaður var svipaður árin tvö, var 7,6 milljónir evra árið 2014, en var 7,5 milljónir evra í fyrra. Fjármagnsgjöld voru hins vegar hærri í fyrra en árið 2014, auk þess sem neikvæð gengisáhrif voru meiri í fyrra en árið á undan. Skýra þessir tveir þættir muninn milli áranna að mestu.

Eignir Þorbjörns um síðustu áramót voru 146,4 milljónir evra, sem er nær óbreytt staða frá árinu á undan. Þar af eru aflaheimildir um 99,4 milljónir evra. Skuldir og eigið fé breyttust sömuleiðis lítið milli ára. Skuldir námu um áramótin 103,4 milljónum evra og eigið fé nam 43 milljónum evra.

Hluthafar Þorbjörns voru 23 talsins um síðustu áramót. Stærstu hluthafarnir eru Blika ehf. með 32,98%, Skagen ehf. með 32,94% og Tabula Rasa ehf. með 31,25%. Stjórn félagsins leggur til að hagnaður ársins verði færður til hækkunar á eigin fé.