*

fimmtudagur, 29. júlí 2021
Innlent 18. janúar 2021 18:02

Hagnaður TM 1,5 milljarði umfram spár

Jákvæð þróun hlutabréfa og góð afkoma af fjárfestingastarfsemi skiluðu yfir fjórföldum spáðum hagnaði.

Júlíus Þór Halldórsson
Sigurður Viðarsson, forstjóri TM.
Haraldur Guðjónsson

Hagnaður TM fyrir skatta nam 2,1 milljarði á síðasta ársfjórðungi samkvæmt drögum að uppgjöri fjórðungsins, og var samkvæmt því um 1,5 milljarði meiri en þær 625 milljónir sem spáð hafði verið. Þetta kemur fram í afkomutilkynningu sem TM sendi kauphöllinni nú síðdegis.

Í tilkynningunni kemur fram að jákvæð þróun á hlutabréfamarkaði á fjórðungnum hafi skilað mun betri afkomu af fjárfestingastarfsemi en spáð hafði verið, auk þess sem hreinar tekjur af fjármögnunarstafsemi hafi verið umfram spá. Samsett hlutfall hafi verið í takt við horfur.

Hagnaður ársins fyrir skatta mun samkvæmt drögunum nema 5,6 milljörðum í stað 4,1 eins og spáð var í síðustu fjárfestakynningu. Hafa skal þó í huga að aðeins er um drög að ræða, og uppgjörið enn í vinnslu, og endanlegar fjárhæðir kunna því að breytast. Til stendur að fjórðungsuppgjörið verði birt þann 17. febrúar næstkomandi.

Úr milljarði í 2,5
Ekki kemur fram hvernig afkomubótin skiptist milli liðanna tveggja, en í umræddri fjárfestakynningu var því spáð að fjárfestingatekjur yrðu 491 milljón og hreinar tekjur af fjármögnunarstafsemi 466 milljónir. Samanlagðar tekjur liðanna tveggja var því spáð að yrðu tæpur milljarður, en urðu í staðinn um 2,5 milljarðar.

Fyrir árið í heild var því spáð að fjárfestingatekjur yrðu tæpir 2,8 milljarðar og hreinar tekjur af fjármögnunarstarfsemi tæpir 2 milljarðar, og hafa því orðið um 6,2 milljarðar í stað 4,7, sem skila þá 3,4 milljarða hagnaði af reglulegri starfsemi fyrir skatta í stað 1,9.

Stikkorð: TM afkomuviðvörun