Tryggingamiðstöðin (TM) skilaði hagnaði upp á 522 milljónir króna á fyrsta ársfjórðungi. Þetta er 173% meiri hagnaður en á sama tíma í fyrra þegar hagnaður tryggingafélagsins nam 191 milljón króna.

Fram kemur í uppgjöri TM að hagnaður fyrir skatta nam 603 milljónum króna sem er 150% en í fyrra þegar hagnaðurinn nam 242 milljónum króna. Framlegð af vátryggingastarfsemi var 223 milljónir króna, fjárfestingartekjur námu 509 milljónum króna, eigin iðgjöld hækkuðu um 6% og eigin tjón lækkuðu um 17% frá fyrsta ársfjórðungi í fyrra. Arðsemi eigin fjár nam 19,9%. Hún var 6,2% á fyrstu þremur mánuðum síðasta árs. Eigið fé TM nam í lok fjórðungsins 10.753 milljónum króna og var eiginfjárhlutfall í lok fyrsta ársfjórðungsins 33%.

Segir afkomuna geta sveiflast

Sigurður Viðarsson, forstjóri TM, segir samkeppnina á tryggingamarkaði mjög harða og sé afkomubatinn ekki kominn til vegna hækkunar iðgjalda heldur vegna lægri tjónakostnaðar. Hann er ánægður með uppgörið en segir afkomuna geta sveiflast mikið. Haft er eftir honum í tilkynningu að afkoman af vátryggingastarfsemi hafi verið betri en áætlanir gerðu ráð fyrir.

„Það hefur verið yfirlýst markmið okkar um árabil að bæta afkomu vátryggingastarfsemi TM þannig að hún standist samanburð við sambærileg norræn vátryggingarfélög. Rekstrarniðurstöður fyrsta ársfjórðungs, og raunar síðustu missera einnig, staðfesta að við erum komin vel á veg með þetta markmið okkar,“ segir hann.

Uppgjör TM