Hagnaður TM nam 701 milljónum króna á síðasta ári og dróst saman um 77% frá árinu 2017 þegar hann var 3.750 milljónir. Heildartekjur voru 17.516 milljónir króna og drógust saman um 6,7% milli ára. Tekjur vegna eigin iðngjalda jukust um 4,4% og voru 15.648 milljónir króna en fjárfestingatekjur drógust saman um nær tvo milljarða.

Haft er eftir Sigurði Viðarssyni, forstjóri TM, að afkoma fjórða ársfjórðungs 2018 hafi verið í takti við væntingar um afkomu af vátryggingarekstri. „…en fjárfestingatekjur voru heldur lakari en ráðvar fyrir gert. Munar þar mestu um óhagstæða þróun á skráðum hlutabréfum. Árið í heild var mjög krefjandi þar sem óvenju mörg stórtjón urðu á árinu á sama tíma og verðbréfamarkaðir voru þungir,“ segir Sigurður í tilkynningu um ársreikninginn.

Arðsemi eiginfjár minnkaði töluvert milli ára og var 5,3% á síðasta ári samanborið við 24,2% árið 2017. Eiginfjárhlutfall lækkaði lítillega og fór úr 40,7% árið 2017 niður í 38,4% á síðasta ári. Tjónshlutfall var öllu hærra í fyrra en árið 2017 eða 83,9% miðað við 79,2%.

Stjórn TM gerir tillögu til aðalfundar um arðgreiðslu að fjárhæð 700 milljónum króna eða sem nemur hagnaði ársins 2017.

Í rekstrarspá fyrir yfirstandandi ár er gert ráð fyrir að heildartekjur vaxi um 7%, heildargjöld lækki 4% og hagnaður fyrir tekjuskatt verði 2.442 milljónir króna sem er 250% aukning frá árinu 2018.