Hagnaður TM nam 909 milljónum króna á öðrum ársfjórðungi þessa árs samanborið við 1.164 milljónir á sama tímabili í fyrra. Dróst hagnaður félagsins því saman um 22% milli ára. Þetta kemur fram í rekstrarreikningi félagsins fyrir annan ársfjórðung.

Heildartekjur félagsins námu 5.033 milljónum króna og jukust um 10% milli ára. Eigin iðgjöld námu 3.754 milljónum og jukust um 7% frá fyrra ári. Fjárfestingatekjur námu 1.268 milljónum samanborið við 1.054 milljónir í fyrra.

Heildargjöld félagsins námu 4.132 milljónum og jukust um 27% milli ára. Eigin tjón námu 3.227 milljónum á tímabilinu samanborið við 2.280 milljónir á sama tímabili í fyrra. Er hér um að ræða aukningu upp á 42% milli ára.

Samsett hlutfall var 106% á öðrum ársfjórðungi samanborið við 87% á sama tímabili í fyrra.

Í tilkynningu vegna uppgjörsins segir Sigurður Viðarsson, forstjóri TM:

„Hagnaður TM á öðrum ársfjórðungi var 909 m.kr. sem er ríflega 200 m.kr. meiri hagnaður en kom fram í afkomuviðvörun félagsins þann 18. júlí sl. Betri afkoma skýrist einkum af hærri fjárfestingatekjum vegna endurmats á óskráðum hlutabréfum. Afkoma af fjárfestingastarfsemi var mjög góð á fjórðungnum og skilaði 4,9% ávöxtun. Afkoma vátryggingastarfseminnar veldur hins vegar vonbrigðum og munar þar mestu um óhagstæða þróun slysamála frá fyrri árum. Á heildina litið var afkoma TM á öðrum ársfjórðungi góð og arðsemi eigin fjár há, eða 33% á ársgrundvelli. Samhliða birtingu árshlutauppgjörs birtir félagið spá fyrir næstu fjóra ársfjórðunga og endurspeglar hún þá þróun sem er að eiga sér stað í tjónum fyrri ára. Í uppfærðri spá er gert ráð fyrir að samsett hlutfall næstu 12 mánaða verði 97%.“