Hagnaður Tryggingamiðstöðvarinnar (TM) nam 713,8 milljónum króna á þriðja ársfjórðungi. Þetta er 28% samdráttur frá þriðja ársfjórðungi í fyrra þegar hagnaðurinn nam 994,184 milljónum króna. Á fyrstu níu mánuðum ársins jókst hagnaðurinn engu að síður á milli ára en þá nam hann 1,9 milljörðum króna sem var um 100 milljónum krónum meira en í fyrra.

Fram kemur í uppgjöri TM að iðgjöld námu rétt um 3,2 milljörðum króna á þriðja ársfjórðunig borið saman við rúma 2,9 milljarða á sama tíma í fyrra. Eigin iðgjöld námu rétt tæpum þremur milljörðum króna á fjórðungnum borið saman við tæpa 2,8 milljarða í fyrra. Á fyrstu níu mánuðum ársins eigin iðgjöld tæpum 8,7 milljörðum króna í ár miðað við tæpa 8,1 milljarða í fyrra.

Forstjórinn ánægður með uppgjörið

Sigurður Viðarsson, forstjóri TM, segir í uppgjörstilkynningu, reksturinn hafa gengið vel það sem af er ári. Afkoma af fjárfestingastarfsemi hafi verið mjög góð á tímabilinu og tryggingastarfsemin í samræmi við áætlanir.

„Góð afkoma af fjárfestingum skýrist fyrst og fremst af gangvirðisbreytingum hlutabréfa. Samanlögð afkoma annarra eignaflokka er lítillega undir áætlun en það má m.a. rekja til styrkingar krónunnar, sem hafði neikvæð áhrif á eignir í erlendi mynt,“ segir hann en bendir á að eigin tjón hækkuðu umtalsvert á þriðja ársfjórðungi því tvö stór tjón urðu á ársfjórðungnum. Til samanburðar var tjónareynsla þriðja ársfjórðungs 2012 einstaklega góð og ljóst megi vera út frá reynslu fyrri ára að óraunhæft væri að gera ráð fyrir jafn góðri niðurstöðu á þessu ári og þá.