Hagnaður Tryggingamiðstöðvarinnar (TM) nam 1.015 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Þetta er næstum 200 milljónum krónum minna en á sama tíma í fyrra þegar hann nam 1.191 milljón króna. Þar af nam hagnaðurinn á öðrum ársfjórðungi 314 milljónum króna. Þetta er talsvert minni hagnaður en á sama tíma í fyrra þegar hann nam 669 milljónum króna. Samdrátturinn nam 53% á milli ára.

Fram kemur í uppgjöri TM að hagnaður á hlut eftir fyrstu sex mánuði ársins jafngildir 1,34 krónum á hlut nú borið saman við 1,57 krónur á hlut í fyrra.

Framlegð af vátryggingastarfsemi nam 186 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Þetta er mikill samdráttur frá í fyrra þegar hún nam 826 milljónum króna.

Þá námu fjárfestingartekjur 1.053 milljónum króna á tímabilinu. Þær voru 800 milljónir á sama tíma  í fyrra.

Tjónshlutfall hækkaði nokkuð á milli ára. Það nam 72,5% á fyrstu sex mánuðum ársins en var 61,1% á fyrri hluta síðasta árs.

Haft er eftir Sigurði Viðarssyni, forstjóra TM, í uppgjörstilkynningu, að gott jafnvægi hafi verið á milli framlegðar af vátryggingarekstri og fjárfestingatekna á fjórðungnum. Minni framlegð af vátryggingastarfsemi en á fyrra ári megi fyrst og fremst rekja til aukningar í ökutækjatjónum sem hefur verið hraðari en áætlanir gerðu ráð fyrir.