Tryggingamiðstöðin (TM) hagnaðist um 1.191 milljón króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Þetta er tæplega 47% meira en á sama tíma í fyrra þegar hagnaðurinn nam 811 milljónum króna.

Fram kemur í uppgjöri TM að hagnaður fyrir skatta nam 1.388 milljónum króna borið saman við 965 milljónir á fyrri hluta síðasta árs. Eiginfjárhlutfall TM nam 36% í lok annars ársfjórðungs og var arðsemi eigin fjár 23,4% nú borið saman við 13,3% í fyrra.

Framlegð af vátryggingarstarfsemi 779 milljónir króna borið saman við 451 milljón í fyrra. Eigin iðgjöld hækkuðu um 7% á milli ára en eigin tjón lækkuðu um 5%. Þá hækkaði kostnaðarhlutfall úr 22,4% í fyrra í 24,7% nú.

Forstjórinn ánægður

Sigurður Viðarsson, forstjóri TM, er ánægður með afkomuna á fyrri hluta ársins. Haft er eftir honum í tilkynningu að aukin framlegð af vátryggingastarfseminni skýrist af því að viðskiptavinum hefur fjölgað nokkuð á fyrri helmingi ársins á sama tíma og tjónakostnaður lækkaði. Þá gerðu áætlanir ráð fyrir hækkun á tjónakostnaði samhliða auknum umsvifum í þjóðfélaginu, sem hafa látið á sér standa. Á hinn bóginn bendir hann á að fjárfestingatekjur eru lítillega undir áætlun, einkum og sér í lagi vegna neikvæðra áhrifa sem styrking krónunnar hafði á verðmæti erlendra eigna félagsins í krónum talið á tímabilinu.

Sigurður bendir á að kostnaðarhlutfallið hafi verið hátt á tímabilinu. Helstu ástæður þessa eru einskiptiskostnaður vegna skráningar TM á markað og hærri markaðskostnaður en áætlanir gerðu ráð fyrir. Stjórnendur ætla engu að síður að standa við um 21,5% kostnaðarhlutfall fyrir árið í heild.

„Varðandi framtíðarhorfur má sérstaklega nefna að erlendir vátryggingamarkaðir hafa tekið hækkun á lánshæfismati TM frá því í febrúar síðastliðnum vel og við skynjum mikinn áhuga og aukin viðskipti í erlendri starfsemi félagsins. Lánshæfismat TM er lykillinn að þeim viðskiptum en eins og fram hefur komið er matið á TM dregið niður af lánshæfismati íslenska ríkisins,“ segir hann.