Tryggingamiðstöðin hefur gefið út afkomuviðvörun vegna annars ársfjórðungs, en félagið sér fram á að tjónakostnaður félagsins verði mun hærri en spáð hafði verið. Er um algerlega andstæða niðurstöðu en afkomuviðvörun sem VÍS birti fyrir viku greindi frá, þar sem tímabilið var óvenjutjónlétt.

Stærsta frávikinu veldur óhagstæð þróun eldri slysatjóna segir í afkomuviðvöruninni. Reiknað er með að hagnaður fyrir tekjuskatt verði 676 milljónir króna á fjórðungnum í stað 1.209 milljónir króna. sem áður hafði verið spáð.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í umfjölluninni um afkomuviðvörun VÍS notast vátryggingafélög afkomumælikvarða sem byggir á samsettu hlutfalli, þar sem lagt er saman eigið tjónshlutfall og kostnaðarhlutfall.

Kemur nú í ljós að þetta samsetta hlutfall fjórðungsins verður 106% í stað 94% eins og spáð hafði verið. Uppfærð rekstrarspá til næstu 12 mánaða verður birt samhliða birtingu árshlutauppgjörs annars ársfjórðungs 24. ágúst næstkomandi.