*

þriðjudagur, 21. september 2021
Innlent 8. maí 2018 09:51

Hagnaður TM lækkar um 70%

Hagnaður TM lækkaði um 70% á fyrsta ársfjórðungi vegna óvenju mikils tjónaþunga og mikilla fjárfestingatekna fyrir ári.

Ritstjórn
Sigurður Viðarsson, forstjóri TM.
Haraldur Guðjónsson

Hagnaður TM lækkaði um 70% á fyrsta ársfjórðungi milli ára úr 966 miljónum króna árið 2017 í 289 milljónir króna í ár. 

Munar þar mestu um að fjárfestingatekjur dragast saman um 44% milli ára og að ársfjórðungurinn var óvenju tjónaþungur Fjárfestingatekjur TM á fyrir ársfjórðungi árið 2017 óvenjuháar og námu 1,3 milljörðum króna en lækka í 738 milljónir króna milli ára. Þá var samsett hlutfall TM á fyrsta ársfjórðungi 2018 nokkuð hærra en á sama tímabili á síðasta ári, eða 109,8% samanborið við 106,5% árið 2017. Áður birt rekstrarspá félagsins hafði gert ráð fyrir 106% samsettu hlutfalli á tímabilinu. Samsett hlutfall TM síðustu 12 mánuði er 100,3%. Verri afkoma af vátryggingastarfsemi skýrist einkum af hærra tjónshlutfalli í skipatryggingum, ábyrgðartryggingum og eignatryggingum.

Sigurður Viðarsson, forstjóri TM, bendir á að fyrsti ársfjórðungur hafi reynst óvenju tjónaþungur sem skýri verri afkomu af vátryggingastarfsemi en spár félagsins gerðu ráð fyrir. Þar muni mestu um þrjú nokkuð stór tjón í skipa- og eignatryggingum sem urðu á tímabilinu. „Fjárfestingastarfsemi gekk hins vegar vonum framar og nam ávöxtun fjórðungsins 2,6%. Á heildina er niðurstaðan því betri en við gerðum ráð fyrir,“ segir Sigurður.

TM hefur uppfært afkomuspá sína vegna annars ársfjórðungs vegna brunans í Miðhrauni í Garðabæ og annarra tjóna sem liggja fyrir. „Fjárfestingatekjur annars ársfjórðungs lækka frá fyrri spá þar sem hluti þeirra féll til á fyrsta fjórðungi. Þá hafa iðgjöld ársins verið endurskoðuð vegna breytinga á viðskiptamannastofni félagsins," segir Sigurður.

TM gerir ráð fyrir að hagnaður félagsins vegna ársins 2018 verði 2,65 milljarða króna fyrir skatta miðað við 3,2 milljarða króna hagnað árið 2017 og lækki því um 17%. Þá er ráðgert að samsett hlutfall fyrir árið nem 96% en það var 99% árið 2017.

Kostnaðarhlutfall félagsins á fjórðungnum var 22,8% samanborið við 24,4% á sama tímabili 2017. Kostnaðarhlutfall síðustu 12 mánuði er 19,8% og gert er ráð fyrir að kostnaðarhlutfall næstu 12 mánuði verði 19,6%.

Fjárfestingatekjur á fyrsta ársfjórðungi voru talsvert umfram spá sem gerði ráð fyrir að fjárfestingatekjur myndu nema 419 milljónum króna. Afkoman skýrist meðal annars af  af tekjum af óskráðum hlutabréfum sem hafði verið gert ráð fyrir á öðrum ársfjórðungi í afkomuspá félagsins. Þar af leiðandi er spá um fjárfestingatekjur á öðrum ársfjórðungi lækkuð um sem nemur 210 milljónum króna Spá fyrir fjárfestingatekjur ársins hefur samt sem áður verið hækkuð um rúmar 100 milljónir króna eða 4,3%.