Hagnaður tryggingafélagsins TM nam 2.078 milljónum króna á síðasta ári. Þetta er 560 milljónum krónum minni hagnaður en árið 2012 þegar hagnaðurinn nam 2.638 milljónum króna. Hagnaður á hlut nam 2,73 krónum sem er 13 aurum meira en árið 2012.

Fram kemur í uppgjöri TM að hagnaður fyrir skatta nam 2.269 milljónum króna í fyrra borið saman við 3.006 milljónir króna árið 2012. Þá nam framlegð af vátryggingastarfsemi 547 milljónum króna. Hún var 890 milljónir árið 2012. Fjárfestingatekjur voru 2.094 milljónir króna sem er aðeins minna en árið 2012. Eigið fé TM var í lok árs 12.308 milljónir króna um síðustu áramót og eiginfjárhlutfallið 40,3% borið saman við 37,3% undir lok árs 2012.

Í áætlun félagsins fyrir árið 2014 er gert er ráð fyrir að hagnaður fyrir skatta verði 2.641 milljón króna. Hagnaður félagsins er ekki jafnskiptur yfir árið vegna árstíðasveiflu en almennt er meira um tjón yfir vetrarmánuðina en yfir sumarmánuðina.

Aðeins undir áætlunum

Sigurður Viðarsson, forstjóri TM, segir í uppgjörstilkynningu:

„Hagnaður samstæðunnar fyrir skatta er um 2% lægri en áætlanir gerðu ráð fyrir en á því eru tvær megin skýringar. Tvö stór skipatjón urðu á þriðja fjórðungi ársins sem höfðu þau áhrif að eigin tjónakostnaður félagsins var um 200 milljónum krónum hærri en áætlað var. Iðgjöld vegna slysatrygginga sjómanna voru rúmlega 150 milljónum króna lægri en ráð var fyrir gert á árinu en þau fylgja þróun aflaverðmætis sem dróst saman um rúm 5% milli ára. Áætlanir TM höfðu gert ráð fyrir því að áhrifa af samdrætti í aflaverðmæti gætti í iðgjöldum tímabilsins, en ekki í jafn miklum mæli og raun varð. Afkoma annarra greinaflokka en skipa- og slysatrygginga er í takti við áætlun. Kostnaðarhlutfall hækkar vegna einskiptiskostnaðar við skráningu félagsins en sá kostnaður nam um 95 millj. kr. Að auki var umboðs- og launakostnaður hærri en ráð var fyrir gert, bæði vegna aukinnar sölu en einnig vegna kostnaðar við skipulagsbreytingar,“ segir Sigurður.