Fyrirtækið Windrush Ventures Ltd., helsta fyrirtækið í kringum ráðgjafarstörf Tony Blair, hagnaðist um 2,6 milljónir punda á fjárhagsárinu 2014-2015. Hagnaður fyrirtækisins þrefaldaðist frá árinu á undan. Bloomberg greinir frá.

Tony Blair rekur hin ýmsu fyrirtæki og samtök sem hafa starfsemi í yfir 20 löndum. Windrush Ventures er fyrirtækið sem heldur utan um eitt arðbærasta verkefni Blair, en það eru ráðgjafarstörf fyrir forseta Kasakstan, Nursultan Nazarbayev.

Hæstlaunaði stjórnandinn hjá Windrush var með um 403 þúsund pund í tekjur á fjárhagsárinu, jafnvirði 6,4 milljóna króna á mánuði á núverandi gengi. Catherine Rimmer, sem var aðstoðarmaður Blair á stjórnartíð hans, er einnig á meðal hæstlaunuðu stjórnendanna.