Japanski bílaframleiðandinn Toyota hefur birt uppgjör sitt fyrir fyrsta ársfjórðung í fjárhagsári fyrirtækisins. Þar kemur fram að hagnaður þess jókst um 10% á fjórðungnum borið saman við sama tíma í fyrra. BBC News greinir frá uppgjörinu.

Hagnaður Toyota á fyrsta ársfjórðungi nam nú 646,3 milljörðum jena. Fjárhæðin jafngildir tæpum 700 milljörðum íslenskra króna. Á sama tíma í fyrra nam hagnaðurinn 587,7 milljörðum jena. Þá hækkaði Toyota lítillega söluspá sína fyrir árið í heild.

Toyota birtir uppgjör sitt stuttu eftir að greint var frá því að þýski bílaframleiðandinn Volkswagen hefði tekið fram úr fyrirtækinu sem stærsti bílaframleiðandi í heimi. Hins vegar er óvíst að síðarnefnda fyrirtækið haldi þeim titli á næsta ársfjórðungi og ljóst að samkeppnin milli fyrirtækjanna verður hörð.