Heildarhagnaður HS Orku nam 1.874 milljónum króna á síðasta ári, samanborið við 971 milljónar hagnað árið 2020. Breytingin á milli ára skýrist einkum af álverðstengingu í orkusölusamningi við Norðurál en gangvirðisbreyting á innbyggðri afleiðu í samningnum, sem ræðst af framtíðarálverði, var jákvæð um tæplega 2,2 milljarða. Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi.

Fram kemur að félagið hafi gert afleiðusamninga til að draga úr álverðsáhættu en 85% af tekjum á árunum 2021-2022 samkvæmt samningum til Norðuráls eru varðar gegn verðbreytingum á áli. Niðurstöður næmnigreiningar HS Orku eru að 10% hækkun álverðs í lok ársins hefði bætt afkomu félagsins eftir tekjuskatt um 867 milljónir en 10% lækkun hefði haft í för með sér 885 milljóna verri afkomu.

Rekstrartekjur félagsins jukust um 7,2% á milli ára og námu 9,2 milljörðum. Framleiðslukostnaður og kostnaðarverð sölu jókst hins vegar um 19,3% og nam 7,3 milljörðum. Laun og launatengd gjöld námu 2,1 milljörðum, samanborið við 1,6 milljarða árið 2020 en ársverkum fjölgaði úr 70 í 73. Rekstrarhagnaður dróst saman um 26,7% frá fyrra ári og nam 1.151 milljónum króna á síðasta ári.

Minni framleiðsla

Í skýrslu stjórnar segir að framleiðsla í megawöttum talið hafi verið minni í fyrra en árið 2020. Samdráttur í framleiðslu er meðal annars rakinn til vélabilunar og eldsvoða í orkuveri HS Orku í Svartsengi í apríl 2021. Þá kom upp bilun í vélbúnaði og skemmdir á túrbínublaðinu í orkuverinu á Reykjanesi mánuði síðar.

„Einnig ríkir nokkur óvissa um hvernig framleiðsla jarðhitaauðlindarinnar á Reykjanesi mun þróast en á undanförnum mánuðum hefur verið gripið til aðgerða til að tryggja sjálfbærni og stöðugleika í vinnslu jarðvarma. Ástand og nýting jarðhitaauðlindarinnar hefur veruleg áhrif á afkomu HS Orku,“ segir stjórnin.

Í febrúar 2020 tryggði HS Orka sér 210 milljóna dala fjármögnun, jafnvirði um 27 milljarða króna, frá hópi evrópskra banka. Andvirðið var að hluta til nýtt til endurfjármögnunar eldri lána en verður einnig nýtt til byggingar nýrra orkuvera.

Stækkun orkuversins á Reykjanesi, REY 4, um 30 MW stækkun er í byggingu og áætlað er að rekstur muni hefjast á fyrsta ársfjórðungi 2023. Önnur verkefni í þróun á Reykjanesskaga eru Eldvörp, Trölladyngja og Krýsuvík „sem er gjöfult jarðhitasvæði og framtíðaruppspretta á heitu vatni fyrir höfuðborgarsvæðið“.

Greiddu út 3,6 milljarða

HS Orka greiddi út 28 milljónir dala, eða um 3,6 milljarða króna, til hluthafa með lækkun hlutafjár í kjölfar hluthafafundar í nóvember. Stjórn félagsins leggur til að ekki verði greiddur út arður í ár.

Eignir félagsins námu 59,5 milljörðum í árslok 2021, samanborið 56,5 milljarða ári áður. Eigið fé lækkaði um 1,8 milljarða frá fyrra ári ognam 30,1 milljarði.  Eiginfjárhlutfall orkufyrirtækisins lækkaði því úr 56,5% í 50,6% á milli ára.

HS Orka er til helminga í eigu lífeyrissjóða og fjárfestingafélagsins Ancala partners.