Rekstrartekjur Eimskips voru 112,7 milljónir á fyrsta ársfjórðungi 2015 og jukust um 8,5 milljónir evra eða 8,1% frá fyrsta ársfjórðungi síðasta árs. Hagnaður fyrirtækisins eftir skatta nam 1,5 milljónum evra, sem var bati um 2,3 milljónir evra miðað við sama tímabil í fyrra.

Eimskip tilkynnti í dag afkomu sína á fyrsta ársfjórðungi 2015. EBITDA nam 5,8 milljónum evra samanborið við 6,0 milljónir evra á sama tímabili í fyrra. Flutningsmagn í áætlunarsiglingum á Norður-Atlantshafi dróst saman um 3,2%, en flutningsmagn í frystiflutningsmiðlun jókst um 4,1%, frá fyrsta ársfjórðungi 2014. Í lok mars var eiginfjárhlutfall 62,9% og nettóskuldir námu 30,3 milljónum evra. Áætluð EBITDA ársins 2015 er óbreytt, á bilinu 39 til 44 milljónir evra.

Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips segir hagnaðinn á fyrsta ársfjórðungi vera umfram væntingar, einkum vegna jákvæðs gengismunar. Helstu gjaldmiðlarnir í rekstri félagsins eru evra, Bandaríkjadollar, íslensk króna og norsk króna. Gengissveiflur, þar sem Bandaríkjadollar, íslensk króna og norsk króna styrktust gagnvart evru, leiddu til gengishagnaðar að fjárhæð 2,9 milljónir evra samanborið við gengistap að fjárhæð 0,2 milljónir evra á fyrsta ársfjórðungi 2014.

Slæm veðurskilyrði höfðu áhrif á reksturinn á fyrsta ársfjórðungi. Skip félagsins áttu erfitt með að halda áætlun vegna þessa og kostnaður jókst vegna yfirvinnu og aukinnar olíunotkunar. Að auki lentu frystiskip félagsins í Noregi í óvæntum bilunum á tímabilinu. Innanlandsstarfsemin á Íslandi varð einnig fyrir áhrifum af slæmu veðri, einkum landflutningarnir og hafnarstarfsemin.

Flutningsmagn í áætlunarsiglingum félagsins hefur vaxið umfram væntingar það sem af er öðrum ársfjórðungi og vöxturinn fyrstu sex vikur fjórðungsins nemur 4,5% frá sama tímabili 2014, einkum þar sem flutningar í Noregi hafa náð sér aftur á strik og einnig vegna áframhaldandi vaxtar í flutningum til og frá Íslandi. Í apríl og byrjun maí þurfti tímabundið að bæta við skipi til að auka flutningsgetuna og þrisvar þurfti að senda gráu leiðina, sem siglir á milli Færeyja og Skotlands, til meginlands Evrópu til að auka við flutningsgetu félagsins vegna yfirbókana frá Evrópu. Aukning magns í frystiflutningsmiðlun í apríl nemur 11,0% frá sama mánuði í fyrra.

Fyrirtækin sem Eimskip fjárfesti í á fyrsta ársfjórðungi munu skila sér að fullu inn í rekstur félagsins fyrir lok annars ársfjórðungs. Útlit er fyrir jákvæða þróun flutningsmagns bæði í áætlunarsiglingum Eimskips og í flutningsmiðlun.

Eimskip og Íslandsbanki undirrituðu í apríl 10 milljóna evra langtíma lánasamning vegna byggingar á 10 þúsund tonna frystigeymslu Eimskips í Hafnarfirði. Auk þess var undirrituð lánalína að fjárhæð 12 milljónir evra til að styðja við frekari fjárfestingar félagsins. Eimskip hefur einnig gengið frá samningum um bætt vaxtakjör við lánastofnanir á Íslandi á lánum sem nema alls 45 milljónum evra.

Eimskip metur enn stöðu sína varðandi smíði á Bakkafossi sem ekki hefur gengið samkvæmt áætlun. Eins og áður hefur komið fram var afhending áætluð á fjórða ársfjórðungi þessa árs, en gert er ráð fyrir frekari töfum og er ákvörðunar varðandi skipið að vænta fyrir lok ágústmánaðar.

Stjórn og stjórnendur Eimskips halda áfram að meta möguleg fjárfestingartækifæri til vaxtar í samræmi við framtíðarsýn félagsins. Eimskip stefnir áfram að tvíhliða skráningu á hlutabréfum félagsins og hefur Seðlabanki Íslands veitt sitt samþykki. Frekari skref í átt að tvíhliða skráningu tengjast þeim fjárfestingarverkefnum sem unnið er að, markaðsaðstæðum, stöðu fjármagnshafta á Íslandi og stöðu rannsóknar Samkeppniseftirlitsins á málefnum félagsins.