*

sunnudagur, 16. maí 2021
Innlent 11. mars 2021 10:41

Hagnaður Varðar aldrei verið meiri

Heildareignir Varðar námu 28,3 milljörðum í árslok 2020 en það er um 13% hækkun milli ára.

Ritstjórn
Guðmundur Jóhann Jónsson, forstjóri Varðar
Aðsend mynd

Afkoma Varðar nam 2.026 milljónum króna á síðasta ári sem er jafnframt mesti hagnaður í sögu félagsins. Afkoman jókst um 12% frá fyrra ári og skýrist aðallega af persónutryggingastarfseminni og af ávöxtun af fjárfestingum. Arðsemi eigin fjár nam 22,2% árið 2020 hjá Verði.

Iðgjöld ársins hækkuðu um 4% milli ára og námu 12,3 milljörðum króna. Tjón námu 8,6 milljörðum króna og jukust um 2% milli ára. Fjáreignatekjur hækkuðu um 22% milli ára og námu 1,9 milljörðum króna. 

Rekstrarkostnaður var 2,9 milljarðar króna og hækkaði um 13% milli ára. Kostnaðarhlutfall var 21,9% og hækkaði um 1,7% milli ára en helsta ástæðan er áframhaldandi fjárfesting í mannauði og þróun stafrænna þjónustulausna. Heildareignir í árslok námu 28,3 milljörðum króna sem er hækkun um rúmlega 13% á árinu.

Fjáreignir námu 22,5 milljörðum og handbært fé 493 milljónum króna. Eigið fé hækkaði um 6,5% milli ára og var í árslok 8,6 milljarðar króna og eiginfjárhlutfallið 30,5%. Gjaldþol félagsins samkvæmt Solvency II var 148,8% í árslok en var 144,3% í lok árs 2019.

„Þrátt fyrir krefjandi samfélags- og efnahagsaðstæður var rekstrarafkoma Varðar á árinu 2020 góð. Hún skýrist helst af góðri ávöxtun fjárfestingaeigna og góðum árangri í persónutryggingastarfseminni,“ er haft eftir Guðmundi Jóhanni Jónssyni, forstjóra Varðar. 

„Vörður hefur átt góðu gengi að fagna á liðnum árum. Félaginu hefur ár frá ári vaxið fiskur um hrygg og fengið fleiri og fleiri viðskiptavini úr hópi heimila og fyrirtækja til liðs við sig. Tryggð viðskiptavina er mikil, sem er vísbending um að þeir kunna að meta þjónustu og kjör sem í boði eru. Það er mikill metnaður innan Varðar til að gera stöðugt betur þegar kemur að þjónustu og öðrum þáttum starfseminnar og mikil áhersla lögð á hagkvæmni rekstrar sem skilar sér í samkeppnishæfum kjörum til viðskipatvina,“ segir Guðmundur Jóhann. 

Stikkorð: Vörður