Rekstur Varðar trygginga skilaði 223 milljóna hagnaði árið 2010. Þetta er nokkur aukning frá árinu 2009, þegar hagnaður af rekstrinum var 181 milljón króna. Heildartekjur Varðar jukust jafnframt milli ára, voru 4,1 milljarður króna í fyrra, en um 3,7 milljarðar króna árið áður. Heildargjöld jukust úr 3,6 milljörðum árið 2009 í 3,9 milljarða á síðasta ári.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu. Þar segir að allar helstu tölur úr rekstri sýna að afkoma félagsins hafi styrkst á síðasta ári. „Eigin iðgjöld jukust um 8% og voru 3.470 milljónir í fyrra samanborið við 3.225 milljónir króna árið 2009. Fjárfestingatekjur Varðar jukust um 27% milli ára og voru 615 milljónir króna árið 2010. Eiginfjárhlutfall Varðar var 22,6% á síðasta ári og arðsemi eiginfjár 15,8%. Gjaldþol Varðar var 1,94 á síðasta ári en var 1,72 í árslok 2009,“ segir í tilkynningu.

„Síðasta rekstrarár sýnir að Vörður tryggingar er að vaxa og eflast á íslenska tryggingamarkaðnum. Þrátt fyrir erfiðar ytri aðstæður í efnahagslífinu hefur félagið skilað hagnaði síðustu tvö ár og fest sig í sessi sem góður valkostur fyrir bæði einstaklinga, fyrirtæki og stofnanir. Félagið eflist og eykur hlutdeild sína ár frá ári og við merkjum að það er greinileg eftirspurn eftir fleiri valkostum á íslenska tryggingamarkaðnum. Vöxturinn í starfseminni er vissulega gleðiefni en það gleður okkur ekki síður að viðskiptavinir Varðar eru ánægðir með þjónustu félagsins,“ segir Guðmundur J. Jónsson, forstjóri Varðar trygginga í tilkynningu.

„Við trúðum því þegar við komum inn í rekstur Varðar trygginga árið 2009 að það væru góð sóknarfæri fyrir félagið á íslenska tryggingamarkaðnum. Afkoma félagsins síðustu misseri hefur sýnt að það var rétt mat því Vörður hefur skilað góðri afkomu og eflt stöðu sína. Sóknarfærin eru enn til staðar, íslenskir neytendur og fyrirtæki vilja góða þjónustu og Vörður mun áfram leggja sig fram um að veita hana,“ segir Janus Petersen, forstjóri BankNordik og stjórnarformaður Varðar trygginga.