*

þriðjudagur, 25. júní 2019
Innlent 27. febrúar 2019 16:58

Hagnaður VÍS eykst um 55%

Eitt besta rekstrarár í sögu félagsins að sögn Helga Bjarnasonar forstjóra VÍS.

Ritstjórn
Helgi Bjarnason er forstjóri VÍS
Eva Björk Ægisdóttir

Hagnaður tryggingafélagsins VÍS var 2.061 milljónir króna á síðasta ári og jókst um rúm 55% frá árinu 2017 þegar hann var 1.326 milljónir króna. Tekjur félagsins af iðngjöldum jukust um ríflega 10% milli ára og voru 22.710 milljónir króna. Töluverð aukning var í tjónum milli ára en þau námu 17.414 milljónum króna sem er tæplega 25% aukning frá fyrra ári. Þá jókst rekstrarkostnaður um rúm 10% og var 5.456 milljónir króna. Hin vegar var mikil aukning í fjármunatekjum sem ríflega tvöfölduðust frá fyrra ári og voru 2.827 milljónir króna.

Helgi Bjarnason, forstjóri VÍS, segir í tilkynningu með uppgjörinu að fjárfestingar hafi gengið vel í erfiðu árferði. „Breytingar sem farið var í á eignasafni félagsins á árinu skiluðu mjög góðum árangri. Þrátt fyrir sveiflur á markaði og slakt ár á hlutabréfamörkuðum var ávöxtun fjáreigna 8,3% sem var umfram spá okkar fyrir árið.“

Eiginfjárhlutfall samstæðunnar var 31,6% miðað við 36,1% árið 2017. Handbært fé nam 1.263 milljónum króna en voru 1.094 milljónir króna árið 2017. Eigið fé lækkaði úr 16.766 milljónum króna í 14.910 milljónir á síðasta ári. Þá jukust heildarskuldir úr 46.405 milljónum upp í 47.150 milljónir króna í fyrra. Stjórn félagsins leggur til arðgreiðslu til hluthafa að upphæð 2.044 milljónum króna sem jafngildir 1,07 krónum á hlut.

,,Starfsfólk VÍS getur verið stolt af afkomu ársins 2018 enda er árið eitt besta rekstrarár í sögu félagsins þegar litið er til arðsemi og hagnaðar. Þrátt fyrir að árið hafi litast af stórum tjónum í innlendri og erlendri starfsemi félagsins var samsett hlutfall 98,7%. Þetta er annað árið í röð sem samsett hlutfall félagsins er undir 99% sem er í takti við þau markmið sem við höfum sett okkur.

Við höfum unnið að því að samræma þjónustuna heilt yfir landið, kynnt nýjungar eins og rafrænar tjónstilkynningar og gerðum viðskiptavinum kleift að koma í viðskipti á netinu. Starfsmenn hafa unnið hörðum höndum að því að einfalda þjónustu við viðskiptavini og fækka flækjum. Við munum halda því áfram á árinu 2019 og koma með fleiri nýjungar til að auðvelda viðskiptavinum að sækja þjónustu okkar.

Hluthafar félagsins tóku jafnframt þátt í að gera það enn betur í stakk búið til að takast á við áskoranir næstu ára. Þeir samþykktu meðal annars á árinu nýja fjármagnsskipan sem hefur það að markmiði að draga úr áhættu fjárfestingasafns sem setur um leið meiri áherslu á vátryggingareksturinn.

Ég trúi því að þrátt fyrir að nú sem endranær séu fjölmargar áskoranir í umhverfinu, sé VÍS vel undir það búið að takast á við þau verkefni sem framundan eru,“ segir Helgi Bjarnason í tilkynningu með uppgjörinu.

 

Stikkorð: Uppgjör VÍS Helgi Bjarnason
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is