*

þriðjudagur, 26. maí 2020
Innlent 21. ágúst 2019 16:18

Hagnaður VÍS fjórfaldast

VÍS gerir nú ráð fyrir 3 milljarða hagnaði á árinu fyrir skatt og að samsett hlutfall verði 98,8%.

Ritstjórn
Eva Björk Ægisdóttir

Hagnaður VÍS á fyrri helmingi þessa árs nam 2.192 milljónum króna og tæplega fjórfaldaðist frá sama tímabili í fyrra. Hagnaður félagsins á öðrum ársfjórðungi nam 1.256 milljónum króna samanborið við 291 milljón króna tap á sama fjórðungi í fyrra en þess ber að geta að annar ársfjórðungur í fyrra var óvenju tjónaþungur auk þess sem ávöxtun á mörkuðum var með lakara móti. Þetta kemur fram í árshlutauppgjöri félagsins sem birt var fyrir skömmu. 

Iðgjöld á fyrri árshelmingi námu rúmlega 11,2 milljörðum og jukust um 4% en iðgjöld á öðrum ársfjórðungi námu 5.661 milljón og jukust um 3% frá sama tímabili í fyrra. 

Tjónahlutfall var 74,1% á fyrri helmingi ársins en var 80,8% á sama tímabili í fyrra. Á öðrum ársfjórðungi var hlutfallið 71,5% en var 89,8% á sama tíma í fyrra. 

Samsett hlutfall á fyrri helmingi ársins var 99,1% en var 103,3% á sama tíma í fyrra. Samsett hlutfall á öðrum ársfjórðungi var 96% og lækkaði um 13,1 prósentustig frá sama tíma í fyrra. 

Tekjur af fjárfestingarstarfsemi námu 2,8 milljörðum á fyrri helmingi ársins og tæplega tvöfölduðust milli ára. Á öðrum ársfjórðungi námu tekjur af fjárfestingarstarfsemi 1.434 milljónum samanborið við 393 milljónir á sama tíma í fyrra. 

Þá hefur VÍS uppfært horfur sínar fyrir árið. Gert er ráð fyrir að samsett hlutfall verði 98,8% og hagnaður fyrir skatta verði um 3 milljarðar króna. Spáin tekur mið af brunanum í Fornubúðum í Hafnarfirði  í lok júlí en bruninn hafði talsverð áhrif á samsett hlutfall félagsins í mánuðinum eins og greint var frá í gær. Félagið hefur því lækkað spá sína um hagnað fyrir skatt um 300 milljónir frá síðustu afkomutilkynningu frá því í byrjun júlí þar sem gert var ráð fyrir 3,3 milljarða hagnaði fyrir skatt. 

Í tilkynningu vegna uppgjörsins er haft eftir Helga Bjarnasyni forstjóra VÍS: 

„Við erum mjög sátt við niðurstöðu fjórðungsins og hálfs árs uppgjörið í heild sinni. Tryggingareksturinn var traustur og í takt við áætlanir en afkoma af fjárfestingum var verulega umfram væntingar, sem varð til þess að við sendum frá okkur jákvæða afkomutilkynningu í júlí. Við höfum unnið jafnt og þétt að því að gera þjónustu okkar aðgengilegri og einfaldari með nýjum stafrænum lausnum. Viðtökur viðskiptavina hafa verið frábærar en um 60% aukning er á innskráningum á nýtt og endurbætt Mitt VÍS það sem af er þessu ári. Við höldum ótrauð áfram á þessari vegferð en einblínum í auknum mæli á sjálfvirknivæðingu til að hraða afgreiðslu mála enn frekar og auka hagkvæmni í rekstri.“

Stikkorð: VÍS