*

mánudagur, 22. júlí 2019
Innlent 22. ágúst 2018 16:29

Hagnaður VÍS helmingast

Tryggingarfyrirtækið VÍS hagnaðist um 552 milljónir króna samanborið við rétt rúman 1,1 milljarð króna á sama tímabili í fyrra.

Ritstjórn
Helgi Bjarnason, forstjóri VÍS.
Eva Björk Ægisdóttir

Tryggingarfyrirtækið VÍS hagnaðist um 552 milljónir króna samanborið við rétt rúman 1,1 milljarð króna á sama tímabili í fyrra og dróst því hagnaðurinn saman um 555 milljónir. 

Tap félagsins á þessum ársfjórðungi nam 291 milljón króna samanborið við 917 milljóna króna hagnað á sama ársfjórðungi í fyrra. Samsett hlutfall var 109,1% samanborið við 84,2% sama tímabil árið 2017. 

Tvö stór brunatjón

„Annar fjórðungur var viðburðarríkur hjá okkur í VÍS, fyrst er að telja tvö stór brunatjón sem urðu með skömmu millibili. Það er eðlilegt að tjón af þessari stærðargráðu liti afkomuna enda hlutverk okkar að standa með viðskiptavinum okkar þegar á reynir. En á sama tíma er gott að sjá hversu sterkur grunnreksturinn okkar er því bæði samsett hlutfall síðustu 12 mánaða og áætlað samsett hlutfall ársins 2018 eru undir 100% þrátt fyrir umrædd stórtjón,“ segir Helgi Bjarnason, forstjóri fyrirtækisins. 

Þá nefnir forstjórinn einnig í tilkynningu til Kauphallarinnar að fyrirtækið hafi fjárfest töluvert í innviðum á tímabilinu og meðal annars í stafrænum verkefnum. 

Samsett hlutfall verði 99%

Uppfærð afkomuspá VÍS til næstu 12 mánaða gerir ráð fyrir að samsett hlutfall félagsins árið 2018 verði 99% og að hagnaður félagsins árið 2018 verði um 2.200 m.kr fyrir skatta. Samsett hlutfall næstu 12 mánaða verður, samkvæmt afkomuspánni, 96,3%.

Stikkorð: Uppgjör VÍS