Tryggingafélagið VÍS hagnaðist um 1.094 milljónir króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Þetta er rétt rúmlega 10% meiri hagnaður en á fyrri hluta síðasta árs þegar hann nam 993 milljónum króna.

Fram kemur í uppgjöri VÍS að hagnaður fyrir skatta nam 1.285 milljónum króna borið saman við 1.176 milljónir á fyrstu sex mánuðum síðasta árs.

Iðgjöld námu 7.971 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins sem er lítil hækkun á milli ára en á fyrri hluta árs í fyrra námu þau 7.916 milljónum króna. Framlegð af vátryggingarekstri nam 221 milljón króna samanborið við 234 milljóna króna í fyrra. Þá námu fjármunatekjur 1.374 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins borið saman við 1.220 milljónir á sama tíma í fyrra.

Heildareignir VÍS námu 47.763 milljónum króna í lok júní borið saman við 43.452 í lok síðasta árs.

Þá nam eigið fé VÍS 15.565 milljónum króna í lok júní samanborið við 14.470 milljónir í lok síðasta árs. Eigið fé var 32,6% í lok júní.

Haft er eftir Sigrúnu Rögnu Ólafsdóttur, forstjóra VÍS, að reksturinn hafi gengið vel á fyrri hluta ársins en m.a. styrking krónunnar á tímabilinu hafi orðið til þess að nokkurt gengistap varð af erlendum eignum.